151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[18:16]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mér er vandi á höndum. Ég ætlaði að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir ágætisyfirferð og ræðu en jafnframt segja að honum hefði ekki tekist að sannfæra mig algerlega um hversu góð hugmynd þetta væri og ég verð að viðurkenna að síðustu ræður sem hafa verið fluttar hér hafa þaðan af síður sannfært mig um að þetta sé rosalega góð hugmynd. Hæstv. ráðherra kom inn á að það hefði verið kallað eftir þessu lengi og ég hef svo sem heyrt þessa rödd sem hljómaði áðan áður, ákveðið hatur á verðtryggingunni, hún sé eitraður kokteill eins og hv. þm. Ólafur Ísleifsson kom inn á. Ég hef einfaldlega ekki haft sama skilning á því fyrirbæri sem verðtryggingin er. Ég verð að viðurkenna, hafandi tekið verðtryggt fasteignalán upp úr tvítugu og örugglega ekki haft ofboðslega djúpan skilning á því hvað verðtrygging var, að maður horfir á hvað maður hefur efni á og hvaða burði maður hefur til að greiða í hverjum mánuði og þá hefur það einfaldlega verið skynsamlegri kostur. Þess vegna hef ég hingað til í þessari umræðu, það hefur verið kallað eftir þessu í töluvert langan tíma og talað um blátt bann við verðtryggingu eða bann við 40 ára lánum, ekki aðhyllst stefnu sem felst í að banna ákveðna lánamöguleika. Aftur á móti finnst mér frábært hvað við erum komin með miklu meiri fjölbreytileika í langtímalánum til fasteignakaupa þar sem fleiri aðilar hafa komið inn á markaðinn. Það er boðið upp á verðtryggðar og óverðtryggðar leiðir og það er af hinu góða. Ég hef aðhyllst það að fólk hafi frelsi til að velja. Hér er verið að leggja til ákveðnar takmarkanir á því. Ég ætla að gefa mér tíma, verandi það lánsöm að sitja í efnahags- og viðskiptanefnd, að fara vel yfir þetta í meðförum nefndarinnar og sjá hvort ég sannfærist um mikilvægi þess að stíga þetta skref á þessum tímapunkti.

Mér þykja margir hv. þingmenn hér hafa gengið ansi langt í yfirlýsingum sínum gegn verðtryggingunni. Ég tók fyrst lán hjá Íbúðalánasjóði — sem við þurfum reyndar núna að bjarga úr um 200 milljarða tapi og standa undir því og væntanlega verður það á kostnað barnanna minna — en annars eru það almennt lífeyrissjóðirnir sem hafa verið að veita fasteignalán. Bankarnir koma núna inn í auknum mæli en lífeyrissjóðirnir hafa verið býsna stórir á þessum markaði. Þar erum við líka að tala um verðtryggðar greiðslur úr lífeyrissjóðunum. Ég velti þá fyrir mér lífeyrisgreiðslum til afa úr lífeyrissjóði hans, vil ég þá ekki að þær séu verðtryggðar? Ég lofaði þeim sem halda utan um þinghaldið að tala mjög stutt því að okkur lægi mikið á, við getum kannski geymt þessa umræðu þangað til síðar. Ég er bara í örstuttu máli að reyna að lýsa ákveðnum sjónarmiðum mínum. Ég held að þessi eitraði kokteill sem hér hefur verið talað um sé náttúrlega sú leið sem varð þess valdandi að ungt fólk gat keypt fasteign. Ungt fólk eins og ég á sínum tíma gat keypt fasteign. Á sama tíma og maður er að koma upp fjölskyldu, stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði, og þar af leiðandi með lægri laun en ella, er auðvitað bæði freistandi og að mörgu leyti skynsamlegt að eiga þann möguleika að þurfa ekki að byrja að greiða af höfuðstólnum fyrr en síðar, í stað þess að vera fastur á leigumarkaði. Að því gefnu að maður vilji ekki vera á leigumarkaði, ég ætla ekki að tala gegn leigumarkaðnum, en fólk á að hafa frelsi til að velja það sem það vill í þessum efnum.

Ég ætla að reyna að hafa þetta ekki lengra þótt vissulega væri hægt að tala meira um þetta mál. Ég veit að það hefur verið kallað eftir þessu. Það kann að vera að hér sé verið að fara skynsamlega leið, stíga ákveðin skref, en ég lýsi því hér með yfir að ég hef ekki verið hrifin af því að banna ákveðnar leiðir þó að ég sjái vissulega kosti óverðtryggðra lána og maður sér að margir leita núna einmitt í þau. En þegar öllu er á botninn hvolft varðandi óverðtryggð lán til lengri tíma þá eru vextirnir breytilegir til lengri tíma og taka þar af leiðandi inn þá verðbólgu sem kann að vera.

Stóra málið á auðvitað að snúast um ábyrga fjármálastjórn og koma í veg fyrir verðbólgu. Það hefur okkur sem betur fer tekist á síðustu árum, þrátt fyrir það sem við höfum gengið í gegnum. Við erum með sögulega lágt vaxtastig og höfum líka haldið verðbólgunni í skefjum.