151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[18:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er reyndar ósammála, en það var samt sem áður sú tíð að ég var sammála hv. þingmanni og færði úr þessari pontu og víðar, mér til ákveðinna vandræða, rök fyrir verðtryggingu og hvernig hægt væri að nýta það form ef maður kynni að fara með það. Verðtryggð lán eru með lægri greiðslubyrði vegna þess að þar eru lægri vextir. Í sjálfu sér eru engir aðrir galdrar við þau en lægri vextir, bankarnir telja sig geta haft lægri vexti á þeim vegna þess að ákveðinn hluti af vaxtaprósentunni er þegar tryggður með verðtryggingunni. Þetta veit ég að hv. þingmaður veit, ég er að útskýra þetta fyrir áheyrendum.

Það eru í raun bara tvenns konar aðstæður þar sem ég get ímyndað mér að verðtryggt lán fyrir unga manneskju sé rökrétt val upp á hagsmuni hennar að gera. Það er annars vegar ef lántakandinn borgar inn á höfuðstólinn í hverjum mánuði umfram það sem hann þarf. Það þýðir auðvitað að viðkomandi þarf að vera í þeirri stöðu að geta það. Rökin fyrir því að halda verðtryggingunni þar af leiðandi með lægri vöxtum eru þau að ungt fólk á lágum launum ráði ekki við óverðtryggðu lánin. Augljóslega er sá hópur ekki að fara að borga aukalega inn á höfuðstólinn. Í því tilfelli skaðar verðtryggingin hagsmuni lántakandans mjög verulega og hann notar þetta úrræði einungis af illri nauðsyn. Hins vegar eru þær aðstæður þegar ung manneskja er á lágum launum en veit að hún mun hækka í launum. Segjum sem svo að þú sért að læra til læknis eða lögfræðings, eitthvað sem maður telur sig vita að maður fái ágætlega borgað fyrir seinna og geti þá ráðið við lánið eða jafnvel borgað áfram inn á það. En hópurinn sem er alltaf verið að reyna að verja með þessum verðtryggðu lánum er hópurinn sem þetta tvennt á ekki við um, hópur sem er á lágum launum og er ekki með neitt plan til að vera á hærri launum, fólk sem er í stétt sem er ekki hátt launuð og sér ekki fram á að færast um stétt. Það er sá hópur sem er viðkvæmastur fyrir þessum verðtryggðu lánum (Forseti hringir.) vegna þess að fyrr eða síðar fer greiðslubyrðin fram úr því sem viðkomandi getur greitt og þá þarf hann að endurfjármagna, líklega aftur verðtryggt, með hærri höfuðstól og meiri skuldabyrði (Forseti hringir.) og verður í enn verri stöðu. Úr þessu verður vítahringur (Forseti hringir.) sem ég verð því miður tímans vegna að útskýra í seinna andsvari. En ég óska viðbragða þingmanns við þessu.