151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[18:33]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki auðvelt að skilja málflutning hv. þingmanns. Hún vill ekki nein bönn og hún vill frelsi og ég held að margt fólk myndi taka undir með henni að það myndi gjarnan vilja hafa meira frelsi, en óskin frá fólkinu er að það sé frjálst undan verðtryggingunni. Hún segist ekki vilja ríkisafskipti af fjármálamarkaði eða yfir höfuð bara nokkrum sköpuðum hlut, ef ég skil hv. þingmann rétt. En verðtryggingin er náttúrlega ríkisafskipti. Ef hún er eitthvað þá er það ríkisafskipti. Þetta er verkfræðileg neyðarlausn eða verkfræðilegt neyðarúrræði frá því fyrir 40 árum, 1979, í allt öðru þjóðfélagi. Þá var enginn fjármálamarkaður að heitið gat og ekki fjármálafyrirtæki eins og við þekkjum núna, allt öðruvísi efnahagslíf, allt öðruvísi hagkerfi. Norðurlandabúar fylgjast auðvitað með fjármálasnilli Íslendinga og hafa nú kynnst henni. En hvernig stendur á því að ekkert Norðurlandanna hefur tekið upp þetta úrræði hjá sér? Hefur þingmaðurinn einhverja skýringu á því, fyrst það er svona ofboðslega snjallt að hafa þessa verðtryggingu? Af hverju er hún ekki í Noregi eða Danmörku?

Síðan vil ég spyrja þingmanninn: Styður hún þetta frumvarp hæstv. fjármálaráðherra og formanns í sínum flokki?