151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[18:35]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég gleymdi í fyrra andsvari að þakka fyrir andsvarið og segja við hv. þingmann að það kann vel að fara svo að hann geti á einhverjum tímapunkti sannfært mig um eitthvað enda vel máli farinn og skýr í því sem hann hefur fram að færa og ég heyri afstöðu hans vel.

Hv. þingmaður talar um frelsi og að fólk vilji vera frjálst undan verðtryggingunni og ég er bara ekkert ósammála því. Það er frábært að boðið sé upp á þá kosti á markaði og fólk geti tekið lán sem er ekki verðtryggt. Ég var einfaldlega að segja að til lengri tíma litið þá taka þessi lán alltaf mið af verðbólgu. Það er það sama og er að gerast á öðrum Norðurlöndum. Þú færð ekki lán til margra tuga ára með sömu vaxtaprósentu. Hún tekur breytingum eftir verðbólgu. Það sem þær þjóðir hafa aftur á móti fram yfir það sem við höfum haft í sögunni er að þær hafa ekki haft jafn mikið flökt og jafn mikla verðbólgu. Góðu fréttirnar eru þær að við höfum náð töluvert utan um verðbólguna með ábyrgri efnahagsstjórn.

Hv. þingmaður spyr hvort ég styðji frumvarpið og ég byrjaði einmitt á að segja að ég væri enn með vangaveltur um það eins og hefur komið fram. En það kann að vera að hér sé verið að fara skynsamlega leið, bil beggja, til að ná utan um þetta og ég ítreka það líka að hér er ekki talað um bann við verðtryggingu, það eru ákveðnar takmarkanir á þessari notkun. Ég ætla bara að gefa mér góðan tíma í hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að fara yfir þetta. Og hver veit, kannski sannfærist ég um skoðanir hv. þm. Ólafs Ísleifssonar og fleiri hér um að þetta kunni að vera góð hugmynd. Við skulum sjá til. Eins og ég sagði líka áðan þá hefur verið kallað eftir þessu og kannski er ekkert verulegt tjón af þessum takmörkunum því að auðvitað eru lán mikið til að færast yfir í óverðtryggð lán, fólk kýs þau mikið en alls ekki allir. Ég viðurkenni það að ég sjálf er með verðtryggð lán á mínum fasteignum að hluta. Fólk þarf bara að meta þetta, hver fyrir sig og hvað hentar í hverju tilfelli.