151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

skýrsla um samstarf á norðurslóðum.

[13:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli þingheims og þeirra sem eru að hlusta á gríðarlega merkilegri skýrslu sem var unnin og skilað til hæstv. utanríkisráðherra. Ég vil hrósa hæstv. utanríkisráðherra fyrir að hafa fengið til liðs við sig fólk sem hefur mikla reynslu og þekkingu til að miðla áfram. Nefndin vann undir forystu fyrrverandi utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar. Mér finnst það ekkert alltaf meðmæli þegar skýrslur eru langar, en þessi 215 blaðsíðna skýrsla með viðaukum er skýrt fram sett og hún undirstrikar hversu mikilvægt það er fyrir okkur Íslendinga að fylgja svona skýrslu eftir og er grunnurinn að þeirri vinnu sem við erum að leggja upp með. Ég sit í nefnd sem hæstv. utanríkisráðherra hefur skipað og á að setja niður stefnu um norðurslóðir og við fengum einmitt Össur á fund nefndarinnar síðast. Ég vil heils hugar taka undir með honum að við verðum að beina sjónum okkar í ríkari mæli að samskiptum okkar, ekki bara við Færeyjar heldur ekki síður við Grænland. Pólitískt er það mikilvægt fyrir okkur og efnahagslega ekki síður og líka út frá ákveðnum félagslegum málum sem við getum miðlað og líka fengið stuðning gagnkvæmt. Maður er svolítið inspíreraður eftir að hafa lesið svona gagnmerka skýrslu sem er með mjög konkret og skýrar tillögur, raunhæfar, ekki eitthvert blaður heldur bara mjög skýrt afmarkaðar tillögur sem eru tengdar við raunheima og sýna ákveðinn metnað. Ef við gerum þetta rétt þá eru ótrúleg tækifæri fyrir okkur til þess að styrkja og efla þessi tengsl sem munu skipta okkur Íslendinga mjög miklu máli, ég vona líka Grænlendinga, en ekki síður okkur núna þegar þunginn er að færast í ríkari mæli á norðurslóðir, ekki bara efnahagslega og pólitískt heldur líka út frá varnar- og öryggissjónarmiðum þannig að við þurfum að tengja þetta allt saman.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann ætli ekki að drífa í því einfaldlega að leggja fram þingsályktunartillögu, (Forseti hringir.) sem ég veit að hann hefur sagt frá og vil hvetja hann til þess að koma fram með sem fyrst, sem byggir m.a. á þessari skýrslu (Forseti hringir.) þannig að við getum hafist handa hér í þinginu.