151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

skýrsla um samstarf á norðurslóðum.

[13:36]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir þetta innlegg og spurningu. Hv. þingmaður þekkir þessi mál mætavel út frá störfum sínum. Ég er alveg hjartanlega sammála henni þegar kemur að tillögum í þessari skýrslu. Þær eru 99 og ég held að það sé ekki þannig að þær verði framkvæmdar allar alveg eins og þær eru lagðar upp. En ég held að þetta sé góður vegvísir til þess að hinir ýmsu aðilar, á Íslandi eru það 40 aðilar sem þar er minnst á, fari og vinni skipulega að því sem hv. þingmaður vísaði til um að styrkja og efla tengslin á milli Íslands og Grænlands. Ég ætla ekkert að endurtaka það sem hv. þingmaður sagði. Hugmynd mín var bara þessi. Eins og fram kemur í máli okkar beggja þá erum við sammála um markmiðin. Það sem mér finnst vanta svolítið á er að við séum að vinna skipulega að því að ná þessum markmiðum. Ég er mjög ánægður að heyra að um þetta er pólitískt breið sátt, eins og fram kemur hjá hv. þingmanni, og ég hef ekki heyrt annað frá öðrum þingmönnum. Það er pólitískt breið sátt um að við sem norðurslóðaþjóð séum að styrkja og efla tengslin við okkar nánustu nágranna. Það er allra hagur.

Hv. þingmaður spyr hér um þingsályktunartillöguna sem ég hef, eins og hv. þingmaður vísaði til, lýst því yfir að sé í undirbúningi. Ég held að það skipti hins vegar mjög miklu máli að um hana sé eins góð sátt og mögulegt er. Ég held að við ættum að geta náð því og orð hv. þingmanns gefa mér mjög miklar vonir um það. Ég get ekki sagt að það komi mér á óvart. Það hefði komið mér á óvart ef hv. þingmaður hefði verið með annan tón en raun ber vitni út af þessu máli. Þessi hvatning þingmannsins skiptir máli og ég get lofað henni að við munum halda áfram að vinna að þessu máli á fullu þannig að þingið geti tekið á því sem allra fyrst.