151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

skýrsla um samstarf á norðurslóðum.

[13:38]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Já, þetta var mikilvægt og gott að heyra. Vissulega eru þetta 99 tillögur en það eru engu að síður tíu tillögur til stefnumörkunar og í raun hægt að taka þær allar. Ég vil m.a. vekja athygli á, af því að hæstv. menntamálaráðherra er hér líka, uppbyggingu fjarnáms og nýta þar Háskólann á Akureyri, stuðningi við berskjaldaða, ekki síst með fókus á Austur-Grænland og erfiðar aðstæður þar, þar sem við reynum að koma til og færa fram ákveðna sérfræðiþekkingu o.fl. Ég nefni líka leit og björgun en ekki síður að samningur verði gerður á heilbrigðissviði og að við komum upp norðurslóðasetri, hvort sem það verður í Reykjavík eða fyrir norðan og í tengslum við Háskólann á Akureyri.

Ég tel mjög mikilvægt að við fáum þetta sem fyrst og þess vegna fagna ég orðum hæstv. ráðherra. Ég vona að mín aumu orð hér úr þessum ræðustóli verði til þess að hann hraði þeirri vinnu. Viðreisn hefur bæði hvatt og stutt ríkisstjórnina á þessu kjörtímabili til allra góðra verka og ekki verður breyting á því. Ég vil undirstrika að mér finnst engin ástæða til að bíða með það fram á síðustu stundu að leggja fram þingsályktunartillögu. Það eru kosningar í haust. Mér þætti betra að við værum búin að afgreiða þessa þingsályktunartillögu fyrir þinglok og ég vil lýsa yfir stuðningi Viðreisnar við að vinna að því að málið verði afgreitt héðan úr þinginu sem allra fyrst.