151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

skýrsla um samstarf á norðurslóðum.

[13:39]
Horfa

utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Bara svo það sé alveg skýrt þá er ekki þannig að það standi til að bíða eitthvað með þetta. Það liggur hins vegar alveg fyrir að það er ekki bara svo að við þurfum að fara í þingsályktunartillöguna, heldur þurfum við líka, út af þeim viðbrögðum sem við erum búin að fá við skýrslunni, að setja þessa hluti í farveg. Ég var ekki að tala það niður að framkvæma þessa tillögur, alls ekki. Eins og ég segi eru mjög margir sem koma að þessu. Það var ekki einn ráðherra, það var ekki ein stofnun, það var ekki eitt ráðuneyti. Þetta snýst um að við Íslendingar vinnum skipulega að því með Grænlendingum — við höfum fengið viðbrögð frá þeim, þau eru mjög skýr — að ná fram markmiðum sem koma fram í skýrslunni. Það væri frábært ef allar 99 tillögurnar yrðu framkvæmdar, en af því að maður þekkir það að þegar málin þróast þá munum við kannski ekki gera nákvæmlega það. En ég efast ekki um að það er grundvöllur til þess að gera mjög vel í þessum málum. Hv. þingmaður skal ekki gera lítið úr sínum eigin orðum því að það skiptir mjög miklu máli að einn af forystumönnum stjórnarandstöðunnar komi fram og tali með þeim hætti sem hv. þingmaður gerði. Það er þakkarvert og ég þakka sérstaklega fyrir það.