151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

réttur námsmanna til atvinnuleysisbóta.

[13:45]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra svörin. En ég bendi á að námsmenn segjast hafa greitt 4 milljarða í Atvinnuleysistryggingasjóð en fá ekkert af því til baka. Það er lágmarkið að þeir fái eitthvað af þeim fjármunum til baka. Og af hverju eiga þeir sem eru að vinna með námi og leggja eiginlega á sig tvöfalda vinnu, ekki að fá það? Það er ákveðinn hópur sem fellur á milli skips og bryggju og sumir sem eru að detta út af atvinnuleysisbótum núna hafa reynt að fá alla þá vinnu sem býðst. Ég veit um einn sem datt út af atvinnuleysisbótum nú um áramótin. Hann var búinn að gera allt sem hann gat til að fá vinnu, var kominn í ferðamannabisness við að keyra rútur, en datt út af þeim núna um áramótin, veit ekki hvort hann á fyrir leigu eða neinu. Honum er sagt að fá félagsbætur en hann fær þær ekki ef makinn er með einhverjar tekjur. Hann er bara í vítahring. Við hljótum að þurfa að grípa þetta fólk líka. Við getum ekki bara sagt: Étið bara það sem úti frýs vegna þess að við ætlum ekkert að gera fyrir ykkur. Það gengur ekki upp. Þau borga eiginlega ekki húsaleigu og fæða ekki börnin sín.