151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

réttur námsmanna til atvinnuleysisbóta.

[13:46]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég ætti kannski að rifja það upp að á sínum tíma var það ákvörðun ríkisstjórnar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar, sem ákvað að gera það að tillögu sem samþykkt var hér í þinginu, að mig minnir með miklum meiri hluta, að breyta bótarétti námsmanna, þ.e. þeirra sem teljast hafa nám að aðalstarfi. Það var gert vegna reynslunnar eftir hrun, að ráðist var í þá breytingu. Í staðinn var ákveðið að reyna að tryggja námsmönnum framfærslu að sumri til og einbeita sér að því að bæta stuðningskerfi námsmanna, þá í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna, nú í gegnum Menntasjóð námsmanna. Þar hafa í raun verið sömu sjónarmið sem ríkisstjórnin hefur haft til grundvallar, þ.e. að við eigum að sjálfsögðu að reyna að tryggja námsmönnum framfærslu, alveg eins og við eigum tryggja öllum framfærslu. Það gerum við í gegnum öflugt stuðningskerfi Menntasjóðsins og tryggjum það að námsmenn hafi að einhverjum störfum að ganga á sumrin, eins og við gerðum sannarlega í sumar og ég held að við höfum séð að skilaði sér, ekki bara í störfum heldur líka í aukinni þekkingu. Ég nefni þar aftur Nýsköpunarsjóð námsmanna, sem er eitt besta tæki sem við eigum til að efla þekkingu og tryggja framfærslu námsmanna.