151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

viðbrögð við Covid og vinnumarkaðurinn.

[14:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Nú fer að verða ár síðan faraldurinn náði tökum á Íslandi. Fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru tímabundið fjárfestingarátak í verkamannastörfum fyrir karla, markaðsátak fyrir ferðaþjónustu og viðbótarlán til fyrirtækja sem nýttust svo ekki neitt. Þá kom barnabótaauki sem leiddi m.a. til þess að ég fékk 30.000 kr. eingreiðslu frá skattinum um áramótin. Ég hef ekki hugmynd um hvernig sú upphæð var reiknuð en myndi endilega vilja fræðast um það í fjárlaganefnd.

Í upphafi faraldursins var mantra ríkisstjórnarinnar að betra væri að gera meira en minna í faraldri sem hún vonaði að myndi standa stutt. Fyrstu mistök ríkisstjórnarinnar voru að halda sig við það að vona það besta en undirbúa ekki það versta. Ríkisstjórnin gerði nefnilega ekki meira en minna heldur vonaði bara það besta. Afleiðingin var rétt rúmlega 12% atvinnuleysi í lok síðasta árs. Rúmlega 21.000 manns eru án atvinnu og rúm 40% atvinnulausra eru erlendir ríkisborgarar. Það er fólkið sem kom hingað til að vinna láglaunastörfin sem þurfti til að Íslendingar gætu gert sem mest úr áhuga erlendra ferðamanna á landinu. Ágóðinn var okkar en láglaunastörfin þeirra. 15% allra á aldrinum 18–24 ára eru atvinnulaus. Unga fólkið okkar sem er að byrja lífið byrjar það án atvinnu.

Faraldurinn varð ekki skammvinnur. Áætlanir ríkisstjórnarinnar voru að bregðast við jafnóðum en vonir um skammvinnan faraldur stóðust ekki. Afleiðingarnar eru skuldir upp á hundruð milljarða og engar áætlanir um hvernig næstu mánuðir í faraldrinum munu fara með okkur, hvað þá hvernig á að vinna upp úr hallanum. Áætlun ríkisstjórnarinnar um að grafa sig í fönn þangað til faraldrinum lýkur hefur ekki virkað. Stormurinn er of langvinnur.

Því vil ég spyrja ráðherra: Hvað kemur næst? Á að tekjutengja atvinnuleysisbætur lengur? Leysist atvinnuleysið í alvöru um leið og faraldurinn klárast? Af hverju erum við ekki með planið í höndunum, plan sem er uppfært reglulega með gagnsæjum hætti?