151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

viðbrögð við Covid og vinnumarkaðurinn.

[14:05]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir þessa fyrirspurn. Ég hlýt þó að gera ákveðnar athugasemdir við val hv. þingmanns í upptalningu aðgerða þegar hann talar hér um að eingöngu hafi verið sköpuð verkamannastörf fyrir karlmenn. Hann lítur algjörlega fram hjá því að fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar, sem var ekki eins árs átak heldur stendur til lengri tíma, eins og hv. þingmaður veit mætavel, snerist ekki bara um fjárfestingar í verklegum framkvæmdum, sem hv. þingmaður vísar til og eru auðvitað töluvert fjölbreytt störf, heldur líka um fjárfestingu í rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum, sem ég held að skipti miklu máli. Það hefur aldrei nein ríkisstjórn gert betur þegar kemur að framlögum til rannsókna og nýsköpunar og þekki ég ágætlega þá sögu frá því að ég settist á þing. Rannsóknasjóður hefur aldrei haft hærri framlög til að spila úr. Á sama tíma eykst auðvitað ásóknin í sjóðinn, sem er gott og segir góða sögu um þróun rannsókna og vísinda á Íslandi. Rifjum upp að framlög til nýsköpunar hafa sömuleiðis aukist á sama tíma og hafa orðið til þess að fjárfesting einkaaðila hefur líka aukist í þessu. Um þetta er búið að tala í mörg ár, að efla þurfi fjárfestingu í þessum greinum, það þurfi að fjölga stoðunum undir atvinnulífið, það þurfi að auka fjölbreytni. Þegar það er gert kjósa menn að líta fram hjá því.

Faraldurinn er tímabundinn en hann er vissulega langdreginn, við getum alveg verið sammála um það, ég og hv. þingmaður. Það breytir því ekki að við sjáum að bólusetning fer fyrr af stað en við áttum von á. Bólusetning fór af stað undir lok síðasta árs. Við væntum þess að á fyrsta ársfjórðungi verði unnt að bólusetja viðkvæmustu hópa samfélagsins o.s.frv. Það mun hafa mikil áhrif á stöðuna hér innan lands. Við höfum gefið tóninn um það hvernig við sjáum fyrir okkur fyrirkomulag á landamærum þróast til lengri tíma (Forseti hringir.) til þess að fyrirsjáanleikinn sé meiri. Þannig að ég hlýt líka að gera athugasemdir við það. Vissulega er faraldurinn orðinn miklu lengri og langdregnari en við hefðum kosið, en (Forseti hringir.) þetta er tímabundið ástand og við þurfum að horfa á það (Forseti hringir.) að vonandi sjáum við miklar breytingar í þá átt á þessu ári. — Afsakið, forseti.

(Forseti (SJS): Já, fyrirspurnatímar geta orðið langdregnir eins og faraldurinn.)