151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

viðbrögð við Covid og vinnumarkaðurinn.

[14:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég verð að minna hv. þingmann á stefnu Vísinda- og tækniráðs, sem ég varð ekki vör við að kæmi frá stjórnarandstöðunni. Þó að ég haldi um leið að það sé mjög mikil þverpólitísk sátt í þessum sal um að auka framlög til rannsókna og nýsköpunar þá hafna ég því sem hér er sagt að allar hugmyndir í þá veru hafi komið frá stjórnarandstöðunni. Ég hafna því af því að það er rangt. Þetta er röng fullyrðing.

Hvar er planið? Jú, hér liggur fyrir plan um það hvað gerist á landamærum 1. maí og að við séum að færa okkur inn í það litakóðunarkerfi sem þróað hefur verið innan evrópskra samstarfsins með útfærslunni sem við höfum verið að vinna að hér.

Hvert er planið í bólusetningum? Það er nú heil umræða um það hér í dag. En hv. þingmaður þekkir það. Þetta gekk hraðar en nokkur hefði getað búist við. Jú, þetta gekk hraðar en við höfum áður séð það gerast, þróun bóluefna, og ég trúi því ekki öðru en að hv. þingmaður viti það jafn vel og ég. Þannig að ég set spurningarmerki við þessa fyrirspurn. Ég held að við á Alþingi Íslendinga verðum bara að sætta okkur við að það er ekki hægt að setja niður algjörlega fyrirsjáanlega áætlun um það hvernig okkur mun nákvæmlega ganga í þessari baráttu við veiruna, sem er einstök. (Gripið fram í.)