151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

lög um sjávarspendýr.

[14:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi það verklag sem hv. þingmaður nefnir og tekur undir að sé ánægjulegt að heyra af varðandi samskipti ráðuneytanna á þessu sviði þá vinna starfsmenn ráðuneytisins að sjálfsögðu í mínu pólitíska umboði. Það er ráðherra hverju sinni sem leggur þeim línur í samskiptum við önnur ráðuneyti eða hvern sem er í þjóðfélaginu. Ráðherra hverju sinni ber því ábyrgð á þeim störfum sem starfsmenn ráðuneytisins vinna. Að því leytinu til tala þessi tvö ráðuneyti saman og undir þeim formerkjum sem ráðherrarnir gefa starfsmönnum sínum.

Þegar spurt er eftir hvaða línum eigi að vinna í þessum efnum veit ég ekki annað en að allar tillögur og öll ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar á sviði nýtingar sjávarspendýra hafi staðist allar alþjóðlegar viðmiðanir. Hafrannsóknastofnun og sérfræðingar okkar (Forseti hringir.) í þessum efnum eru í fremstu röð í heiminum. Ég hef því engar áhyggjur af því að sú ráðgjöf, sem við höfum sem betur fer hlýtt, standist (Forseti hringir.) ekki hörðustu kröfur í þeim efnum sem hv. þingmaður vísar til.