151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:56]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Seinni spurning mín snýr að bóluefnasamningunum sjálfum. Nú hef ég óskað eftir fundi í velferðarnefnd Alþingis og fengið með mér í þá beiðni tvo hv. þingmenn, þau Söru Elísu Þórðardóttur og Guðmund Inga Kristinsson. Ég bað um þann fund þar sem ég óska eftir að þingmenn velferðarnefndar Alþingis í það minnsta fái að sjá samninga sem gerðir hafa verið um bóluefnakaupin. Ég nefni þetta vegna þess að mér sýnist vera einhver leyndarhjúpur yfir þessum samningum og á þeim grunni getur velferðarnefnd óskað eftir slíkum upplýsingum í trúnaði. Stjórnvöld verða að upplýsa þingið um bóluefnasamningana, allt hvað varðar afhendingartíma lyfjanna og hvenær bólusetningu verður lokið. Það er líka mikilvægt að Íslendingar verði upplýstir um hvernig stjórnvöld hafa samið fyrir þeirra hönd og hvað það er sem kemur í veg fyrir að við fáum að sjá samningana. Afsöluðu stjórnvöld sér sjálfsákvörðunarvaldinu í samfloti undir ESB eða getum við ekki samið beint við lyfjafyrirtækin? Hver setti þessi skilyrði um leyndina og trúnaðinn? Var það ESB? Voru lyfjaframleiðendur eða var það Ísland sjálft?