151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[16:19]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, takmarkanir á notkun verðtryggingar í lánssamningum til neytenda. Ég vil hefja ræðu mína á því að segja að það er sérstakt á þessum örlagatímum að koma hér í kjölfarið á þeirri miklu umræðu sem hér fór fram um bólusetningu. Maður þarf því svolítið að setja sig í stellingar og skipta um gír. Þessi umræða hófst hér á fimmtudag með afbragðsræðu, framsöguræðu, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Ég hafði ekki endilega ætlað mér í þessa umræðu en umræðan var afar góð. Þegar ég segi góð þá er ég svolítið að horfa til sögunnar í þessu.

Við höfum í fjóra áratugi búið við svokölluð Ólafslög sem voru sett í þeim mjög skýra og markvissa tilgangi að koma í veg fyrir þá eignatilfærslu sem verðbólgan knúði áfram á þeim tíma. Síðan hefur auðvitað mjög margt breyst í samfélaginu, aðstæður, hagkerfið, atvinnulífið, vinnumarkaðurinn, peningastefna, fjármálastefna o.s.frv. Við höfum gengið í gegnum sveiflur og við höfum gengið í gegnum hrun. Allan þennan tíma höfum við rætt þetta fyrirbæri, verðtryggða vexti, þetta lánafyrirkomulag sem hefur staðið til boða, og við höfum lesið um kosti og ókosti í fjölmörgum skýrslum og greinum.

Viðbrögðin í pólitíkinni eru oft þau, til að ná utan um flókið mál, að setja þetta í stakar setningar, klisjur og reyna að mantra því áfram, jafnvel til að það hljómi vel fyrir pólitíska stefnu. Hér erum við hins vegar að horfa á risastórt mál í því samhengi að við viljum tryggja öllum möguleika á því að koma sér þaki yfir höfuðið, sem við tölum um sem grundvallarþörf. Með málinu, eins og það er lagt fram hér, er verið að fylgja því eftir sem mælt er fyrir um í stjórnarsáttmála að ríkisstjórnin taki „markviss skref á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar“. Þannig er það orðað í stjórnarsáttmála. Þegar minnst hefur verið á í gegnum tíðina að afnema verðtryggingu hefur oft verið látið eins og það sé eitthvað slæmt af því að þá sé verið að banna eitthvað, og ekki erum við hrifin af okurvöxtum. Það eru mjög mörg hugtök sem fylgja þessu fyrirkomulagi sem er að verðtryggja vexti. Þetta er jafnframt liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í stuðningi við lífskjarasamninga milli aðila vinnumarkaðarins.

Mér fannst hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra taka mjög vel utan um málið í framsöguræðu sinni, bæði í sögulegu samhengi og hvað það varðar hverju ber að taka mið af. Um leið og ég fagna þessu frumvarpi, þar sem við Framsóknarmenn höfum lengi bent á ókosti 40 ára jafngreiðslulána, vil ég líka segja að þeir sem tóku þátt í þessari umræðu í upphafi komu með mjög góðar ábendingar. Satt að segja, hæstv. forseti, man ég ekki eftir jafn yfirvegaðri og vandaðri umræðu um þetta mál. Þeir hv. þingmenn sem tóku þátt í umræðunni fóru yfir helstu þætti sem snúa að þessu lánaformi og krufðu þessar klisjur sem oft og tíðum, vil ég meina, hafa verið að þvælast fyrir í pólitískri umræðu. Ég skal koma aðeins inn á það.

Bæði hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson og hv. þm. Ólafur Ísleifsson fóru mjög vel yfir þá ókosti sem þetta lánaform hefur í för með sér og það ójafnvægi sem er á milli lánveitenda og lántaka hvað varðar þekkingu og áhættu sem fylgir þessu formi. Þegar við tölum um áhættu viljum við gjarnan blanda því saman við annað hugtak, sem við ræðum mjög mikið hér nú á tímum, sem er óvissa. Það er vissulega samhengi á milli en það er mjög mikilvægt að aðgreina það sem heitir óvissa og svo það sem heitir áhætta. Óvissan er inn í framtíðina, það er alltaf einhver óvissa sem fylgir hlutum ef við horfum bara nógu langt fram í tímann. Í þessu lánafyrirkomulagi vilja lánastofnanir, lánveitandinn, eðlilega draga úr óvissu, tryggja sig, en þar með fer áhættan, sem kann að fylgja sveiflum í framtíðinni, yfir á lántaka. Það er þannig sem við verðum að aðgreina það sem heitir óvissa og áhætta.

Eignatilfærslur voru í upphafi það sem verðbólgan knúði fram og var m.a. tilgangur Ólafslaganna að koma í veg fyrir og kannski meginmarkmið. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom svo inn á það að þessi valkostur væri mikilvægur fyrir fólk sem réði ekki við mikla greiðslubyrði í upphafi, og því væri þetta valkostur. Þetta hefur oft verið til umræðu. Af hverju erum við að banna hluti? Af hverju má fólk bara ekki velja? Þá verðum við að svara því hvað fólk er að velja. Af hverju getum við ekki hannað fyrirkomulag með jafnræði lántaka og lánveitanda að leiðarljósi, snýst þetta ekki um það? Við erum með umferðarlög, fólk fer ekki yfir á rauðu ljósi. Það er enginn valkostur í því, fólk svindlar og labbar yfir ef það sér ekki bíl. Þetta er það sem ég er að ræða um. Í gegnum tíðina erum við að láta svona hluti flækjast fyrir okkur þegar við erum um leið að reyna að einfalda þá. Það er varla hægt að segja þetta góðan valkost, varla hægt að segja að hann sé sanngjarn vegna þess að höfuðstóllinn — við borgum lítið í upphafi, af því að við ráðum við það, það heitir greiðslubyrði — hleðst upp og eignamyndunin verður hæg ef nokkur fyrstu árin.

Svo er annað sem sjaldan er rætt en það er fræðileg staðreynd hversu nákvæmar mælingarnar eru á vísitölunum sem eru mælikvarðinn á verðlagsbreytingarnar. Það er stundum talað um bjaga. Hann hefur ekki verið rannsakaður til hlítar hér, en ég get þó vísað í ágætispappír, nýlegan, frá Hagstofunni þar sem þetta er rætt og nokkrir íslenskir fræðimenn, hagfræðingar, hafa skoðað þetta aðeins. Þeir hv. þingmenn sem taka þátt í umræðunni geta leiðrétt mig í því ef þetta hefur verið rannsakað í þaula. En það eru til erlendar rannsóknir á þessu og í skýrslu Vilhjálms Birgissonar, sem skilaði hér annarri af tveimur skýrslum 2014, ef ég man rétt, er komið inn á þennan bjaga. Oftast er hann ofmat. Hversu sanngjarnt er það? Er það valkostur að velja lánaform þar sem grundvöllurinn reiknar ekki alveg rétt, ofmetur, og það hleðst líka á lánið? Það lánaform sem ég er að vísa til eru verðtryggð jafngreiðslulán til 40 ára og ágætlega er farið yfir þennan bjaga í skýrslu Vilhjálms. Ég ætla ekki að eyða tímanum í tæknilega framsetningu á þessum bjögum öllum en það er talað um staðgöngubjaga, gæðabjaga, nýjungabjaga og kaupmáttarbjaga. Allt að einu er verðbólgan mæld samkvæmt vísitölu neysluverðs sem liggur til grundvallar verðtryggðum jafngreiðslulánum og stundum höfum við talað um eitraðan kokteil, það er ein klisjan sem hefur flogið hér í gegnum tíðina. Verðbólgan er mæld samkvæmt þessari vísitölu neysluverðs og mælir ekki rétt, þ.e. hárnákvæm virðisrýrnun gjaldmiðilsins er, eins og ég sagði, ofmæld.

Það frumvarp sem við ræðum hér felur í sér tvö meginskref til að draga úr vægi verðtryggingar og annað er að setja hámarkstíma á þessi lán, 25 ár, en þó með undanþágum fyrir tekjulága og ungt fólk, það er skilyrt, og að lágmarki er hann tíu ár. Hér er sannarlega verið að stíga skref og reynt að tryggja að fólk sem ekki getur tekið óverðtryggð lán, eins og eru í boði í bönkunum, til 40 ára með hærri greiðslubyrði, ræður ekki við það en vill fara af stað, geti tekið verðtryggt jafngreiðslulán.

Það sem mér finnst mikilvægast í þessu, og það kom m.a. fram í andsvörum hæstv. ráðherra og hv. þm. Ólafs Ísleifssonar, er klisjan um að verðtryggingin sé ekki vandamál heldur verðbólgan. Veltum þessu aðeins fyrir okkur. Þessu hefur verið fleygt fram í gegnum tíðina og einhvern veginn hefur það bara slegið málið út. Mér fannst hæstv. ráðherra gera mjög vel í að leggja fram tvö sjónarhorn í þessu, annars vegar peningastefnuna og hins vegar einstaklinginn. Við fengum ágætisyfirlit í skýrslu um framtíð íslenskrar peningastefnu, endurmati á ramma peningastefnunnar. Þar kemur fram með óyggjandi hætti hversu mikil áhrif verðtrygging hefur á bit stýrivaxtatækisins. Þar segir að miðlunin sé áhrifameiri og sterkari þegar horft er til breytilegra óverðtryggðra vaxta en mun veikari þegar um er að ræða langtíma verðtryggða vexti, eins og í tilviki jafngreiðslulána. Þetta hefur hamlað virkni peningastefnu.

Ef við horfum á þetta út frá sjónarhorni einstaklingsins, og þá tek ég undir það sem hv. þm. Ólafur Ísleifsson sagði, er verðtryggingin sjálfstætt vandamál. Það er mikilvægt að ræða þetta út frá því sjónarhorni, peningastefna/einstaklingur. Einstaklingurinn horfir til þess að geta komið þaki yfir höfuð sér sem er grunnþörf, sem við viljum sem samfélag stuðla að. Flestar aðgerðir í gegnum tíðina, í þessari 40 ára sögu, vaxtabætur og þess háttar, hafa verið til að styðja fólk og það lánaform sem jafngreiðslulánin eru hefur í raun og veru ýtt undir það að við þurfum að vera með önnur form til að hjálpa fólki í gegnum það að vera með þennan klafa allan þennan tíma. Það er því ýmislegt sem lýtur að því, hæstv. forseti, að við eigum jafnvel að stíga skrefið til fulls.

Ég átta mig á því núna að ég kemst ekki yfir þriðjunginn af því sem ég ætlaði að ræða hérna. Það kann vel að vera að ég komi aftur í ræðu, ég ætla alla vega að fylgjast með því sem fram fer hér áfram. Ég vil hvetja hv. efnahags- og viðskiptanefnd, ég vil alla vega koma því að, til að taka það rækilega til skoðunar að stíga skrefið alla leið, láta vexti lánasamninga heita sínu rétta nafni. Þannig að álagning viðskiptanna heiti vextir, þetta er afnotagjald af peningunum sem eru lánaðir, og þeir liggi fyrir í samningum á milli aðila með réttlátum skilyrðum og fyrirsjáanleika um breytingar. (Forseti hringir.) Það er allt sem mælir með því og þá þurfum við sem erum í pólitíkinni ekki lengur að færa þetta í klisjur sem eru að þvælast fyrir okkur alla tíð.