151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[16:37]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get svarað þessu með mjög einföldum hætti og ég þakka hv. þingmanni fyrir góða spurningu. Mér finnst þetta fyrst og fremst draga það fram hversu ósanngjörn þessi lán eru. Það er lykilatriði. Svo getum við velt því fyrir okkur, hvort sem við erum að horfa á lykiltölur, kennitölur, vísitölur eða hvað þetta heitir allt saman, hversu mikilvægt það er fyrir okkur að fylgja vísitölu sem er samanburðarhæf við aðrar sem eru í notkun. Mikið hefur verið rætt um húsnæðisliðinn í þessum efnum. Ég veit að hv. þingmaður er mér mun fremri þegar kemur að því að fjalla um hagfræðileg hugtök, en ég ætla að láta það liggja eftir í þessu samhengi með húsnæðisliðinn að hann sveiflast og hann er inni í vísitölunni og það er þetta sem talað er um sem virði gjaldmiðils, ytra virði og innra virði. Við erum með einhverja vísitölu og við erum með húsnæði inn í og svo gerast einhverjir hlutir, eins og hefur gerst hér, að húsnæðisverð fer allt í einu að hækka mjög hratt á mjög afmörkuðu og ekkert mjög löngu tímabili — mér verður hugsað til áranna eftir aldamót þegar húsnæðisverð og olíuverð hækkuðu geigvænlega — og það fer beint inn í vísitöluna og þaðan inn í lán. Svo förum við að elta þetta með því að hækka vexti. (Forseti hringir.) Ég ætla ekki að fullyrða að (Forseti hringir.) ofmatið í bjaganum verði meira, en allt að einu þá raskar þetta öllu virðismati, ef ég leyfi mér að orða það þannig.