151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[16:40]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það leitar á hugann við umræður eins og þessa sem við tökum þátt í í dag, og höfum náttúrlega gert nokkrum sinnum áður, hvað þurfi til til að við rífum okkur upp úr hjólförum verðtryggingarhugarfarsins. Verðtryggingin kom til, herra forseti, við allt aðrar aðstæður en nú eru uppi, í allt öðru þjóðfélagi. Þá var búin að vera mjög mikil verðbólga í heilan áratug sem með réttu eða röngu er stundum kenndur við flokk hv. þingmanns sem ég á hér í orðaskiptum við. En lán af þessu tagi, verðtryggð lán, eru í eðli sínu mjög flókið fyrirbæri. Þau eru annars vegar sett saman af því sem myndi geta kallast hefðbundið lán, eins og er í kennslubókum og allt það, en síðan er annar þáttur málsins sem heitir á fjármálaíslensku afleiða, þ.e. að fjárhæðir taka breytingum eftir einhverjum þáttum sem liggja utan við hinn eiginlega lánasamning þannig að enginn veit fyrir fram um fjárhæð einnar einustu greiðslu á lánstímanum. Hvað þarf til, að dómi hv. þingmanns, til að við rífum okkur upp úr þessu fari? Við eigum t.d. góða granna á Norðurlöndunum sem fylgjast vel með fjármálasnilli Íslendinga en hafa ekki tekið þetta upp. Af hverju getum við ekki bara haft það fyrirkomulag á íbúðalánum til einstaklinga sem tíðkast á Norðurlöndunum, t.d. í Danmörku?