151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[16:49]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni, formanni fjárlaganefndar, fyrir mjög gott svar. Það er ánægjulegt að hann er þeirrar skoðunar að ekki sé gengið nógu langt í þessu frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra og að hann bindi jafnvel vonir við að gengið verði enn lengra í þessu máli. Ég get fullvissað hv. þingmann um að hann á svo sannarlega bandamenn í Miðflokknum hvað þetta varðar. Við höfum talað mjög fyrir því að afnema verðtrygginguna, Miðflokkurinn, og undir dyggri forystu hv. þm. Ólafs Ísleifssonar í þeim málflutningi höfum við flutt tillögur og annað slíkt hvað það varðar. Við munum svo sannarlega styðja að það verði að veruleika. Þetta er eitt af þeim ánægjulegri andsvörum sem ég hef fengið hér frá því að ég settist á þing, hve hv. þingmaður tekur vel í að gengið verði lengra í þessum efnum. Hann er formaður fjárlaganefndar þannig að hann er jú áhrifamaður mikill innan ríkisstjórnarsamstarfsins og ég vona að hann geti beitt sér af alefli í þessum efnum.

Það er annað sem ég vildi koma aðeins inn á í lokin. Við vitum að árið 2020 er mjög merkilegt ár, og það mun seint hverfa okkur úr minni. Árið 2020 var einnig árið sem íslensk heimili flúðu verðtrygginguna unnvörpum. Og ástæðan er kunn, það eru náttúrlega stórbætt óverðtryggð lánakjör sem er jákvætt og fer í gang eftir að vaxtalækkunarferli Seðlabankans hófst í maí 2019. Það er svolítið áhyggjuefni núna, eins og kemur fram hjá hæstv. fjármálaráðherra, að verðbólgan hefur aðeins farið upp á við núna. Er það ekki áhyggjuefni, (Forseti hringir.) hv. þingmaður, að verðbólgan skuli vera komin á skrið nú, sérstaklega í ljósi frétta um hve margir hafa tekið óverðtryggð lán í þeirri trú að hér muni stöðugleiki ríkja áfram?