151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[16:51]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Það er mjög margt í henni sem ég væri til í að ræða. Fyrst vil ég segja að ef við stígum skrefið alla leið þá er tvennt sem skiptir mjög miklu máli, af því að við viljum styðja við ungt fólk og tekjulága til að koma sér þaki yfir höfuðið og sína fjölskyldu. Hlutdeildarlánin eru dæmi um það. Þetta er líka í stjórnarsáttmálanum og það er aðgerð sem ég ætla að vísa til. Við þurfum þannig, um leið og við styðjum við einstaklinginn, að styðja við peningastefnuna og við styðjum við lánaumhverfið. Ég ætla líka að treysta á lánastofnanir þar sem er mikil þekking og hugmyndaauðgi og nýsköpun á þessu sviði. Þegar við tölum um lán og endurgreiðslur eru eiginlega engin, ég held ég geti fullyrt það, önnur tryggari lán til en húsnæðislán til neytenda. Það er bara hending, það þarf eitthvað stórvægilegt eða stórkostlegt að gerast, ef þau lán skila sér ekki nánast 100%. Jú, við eigum að beita öllum tiltækum ráðum og halda eins og við getum í efnahagslegan stöðugleika, í verðstöðugleika. Verðbólgan má ekki fara af stað. Í sögulegu samhengi hrökkvum við alltaf aðeins við þegar verðbólgan lætur á sér kræla. Ég held að það verði ansi snúið verkefni fyrir okkur hér að takast á við þetta þegar viðspyrnan kemur út úr kórónuveirufaraldrinum. Þá fyrst þurfum við að vakta þetta.