151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[16:54]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Frú forseti. Þetta er mjög áhugavert mál. Mig langar til að bæta við í þessa umræðu vinkli sem ekki hefur heyrst áður eftir því sem ég best veit. Það er ákveðinn nagli í líkkistuna, að því er mér finnst. Það hefur verið talað um að ekki megi banna þennan möguleika í lánaformum, en vandinn er sá að þetta er lánafyrirkomulag sem á ekki að vera til yfirleitt. Það á ekki að vera leyfilegt að bjóða upp á þetta lánafyrirkomulag. Ástæðan fyrir því er sú að vísitala neysluverðs, sem verðtryggingin byggist á, er mælistika. Það þýðir að þegar verð hækkar — og ég ætla að mæla hversu hátt púltið stendur — [Þingmaður hækkar púltið.] þá sé ég breytinguna og þá þarf ég að hækka aðeins meira, [Þingmaður hækkar púltið á ný.] af því að ég mældi breytingu. Nei, heyrðu, ég mældi breytingu aftur. Þá þarf ég að hækka meira og meira o.s.frv.

Segjum að verðlagið í samfélaginu sé núllpunkturinn, svo bætir maður einhverju við, hækkar verð á einhverju, og þá hefur vísitala neysluverðs breyst. Ef leigusamningar eða lán eru tengd við þetta mælitæki þá hækkar leiguverð miðað við hækkun á vísitölu neysluverðs sem þýðir að það sem vísitala neysluverðs mælir hækkar út af hækkuninni á verðtryggingunni. Þetta er vítahringur. Vítahringurinn er það sem við verðum að klippa á. Það á beinlínis að vera ólöglegt að nota mælitæki til að hafa áhrif á það sem mælitækið er að mæla. Það væri mjög erfitt að nota Celsíus-kvarðann í vísindalegum mælingum ef það væri alltaf að breytast hvað hann þýðir í raun og veru; ef í næstu rannsóknarritgerð sem við myndum skrifa þýddu Celsíus-tölurnar eitthvað allt annað, ef ég þyrfti að taka tillit til vísitölu Celsíus-skalans eða eitthvað því um líkt, til þess að umreikna allar fyrri Celsíus-tölur í öllum öðrum vísindagreinum. Það gengur ekki.

Vísitala neysluverðs er mælitæki, ákveðinn fasti að stærð. Lengi vel var skilgreining á kílói ákveðinn hlutur. Vegna ýmissa efnahvarfa o.s.frv. þá breyttist þyngdin á þessum hlut sem sjálfkrafa breytti skilgreiningunni á því hvað kílógramm er. Svona hlutum er dreift út um allan heim til þess að hægt sé að komast í þennan staðal, þ.e. hvert kílóið er. En hlutirnir hafa á mismunandi stöðum í heiminum breyst mismikið í þyngd hver miðað við annan þannig að þeir eru ekki lengur jafn þungir. Kílóið er þar af leiðandi misþungt á mismunandi stöðum í heiminum nema það sem þeir eru með í Frakklandi, það er lokastaðallinn; þar segir í raun og veru hve kílóið er þungt. En heildarþyngd á kílói minnkaði. Pínulítið, en það minnkaði. Nákvæmlega eins og ef það á að vera mælitæki þá virkar það ekki lengur. Við verðum að hugsa mælitækin okkar, sem við notum til að skoða hvernig efnahagurinn þróast, út frá þeirri spurningu hvort verið sé að mæla vítahring eða ekki, því að ef mælikvarðinn er að mæla sjálfan sig þá er hann gagnslaus. Vísitala neysluverðs segir okkur ekki neitt því að hún er að mæla sjálfa sig. Þess vegna má ekki, ekki í leigusamningum, ekki í lánum, hvergi, hafa þá afsökun að vísitala neysluverðs hafi hækkað og þar af leiðandi ætli menn að hækka húsaleiguverðið. Þetta má ekki, því að þá breytist það og af því að maður hækkaði útsöluverðið þá hækkar vísitalan og þá þarf að hækka húsaleiguverðið aftur án þess að nokkuð annað hafi breyst. Það er fáránlegt í einu orði sagt. Bara þetta eina atriði, þessi eina einfalda ástæða, þessi vítahringur sem við verðum að fylgjast með og passa að sé hvergi í kerfinu — það er ekkert auðvelt, skal ég segja ykkur, það er alls ekki sjálfgefið — ætti að vera nóg til þess að við tökum vísitölu neysluverðs og tökum verðtrygginguna og hendum henni út um gluggann.