151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[17:15]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir alveg stórkostlega góða og upplýsandi og áhugaverða ræðu. Hann nálgaðist hlutina, sérstaklega í lokin, út frá sjónarhorni sem ég vildi gjarnan heyra oftar, þ.e. að við byggjum hagkerfi okkar að þó nokkuð miklu leyti á hagstærðum sem er ekki bara erfitt að mæla heldur allt að því ómögulegt að mæla, og þær eru ósanngjarnar. Það er ósanngjarnt hvernig þær hafa áhrif á neytendur og samfélagið allt en einhverra hluta vegna látum við eins og það sé bara fullkomlega eðlilegt og að þessar skekkjur skipti ekki máli. En það er auðvitað rangt. Ég tek hjartanlega undir með hv. þingmanni hvað það varðar.

Mig langaði til að nota tækifærið og spyrja hv. þingmann hvort þessi athugasemd sé ekki ástæða til að skoða með hvaða hætti við getum gert hagkerfið í heild sinni gagnsærra og mælingarnar þar af leiðandi marktækari, jafnvel fullkomlega marktækar. Ég veit ekki hvort það er endilega hægt, en ýmsar ágætar tilraunir hafa verið gerðar til þess og rætt í mörgum ágætum bókum um leiðir sem hægt væri að fara í þá átt. Ég hef nokkrum sinnum talað um tilraunir Staffords Beers í Síle 1970–1973 í þessa veru, en það væri gaman að heyra ef hv. þingmaður hefur hugsað eitthvað út í hugmyndir um að reyna að sjálfvirknivæða gagnsæið í hagkerfinu til þess að bæta einmitt þessa efnahagslegu mælikvarða sem við reiðum okkur allt of mikið á í raunveruleikanum.