151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[17:22]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Þetta er mjög áhugaverð umræða og skiptir okkur mjög miklu máli. Ég held að það sé vel til fundið hjá hv. þingmanni að við tækjum á miklu breiðari grunni hvernig við getum bætt þessa ferla og séð til þess að skekkjur af þessu tagi verði sem allra minnstar og sérstaklega að þær lendi ekki á þeim sem síst skyldi, eins og við höfum upplifað núna í mörg ár, t.d. hvað verðtrygginguna varðar og vísitölu neysluverðs í því sambandi. En það er á fleiri sviðum sem við erum að sjá skekkjur sem geta haft verulegan kostnað í för með sér fyrir þjóðarbúið og þjóðarbúið misst af tekjum. Við sáum það bara fyrir örstuttu að Hafrannsóknastofnun gerð einhver mistök í mælingum á loðnustofninum og gaf út kvóta á loðnu sem var lægri en tilefni var til, þ.e. það var upprunalega 50.000 að ég held en var síðan hækkað í 61.000, vegna einhverrar skekkju í mælingum. Það hefur veruleg áhrif fyrir þjóðarbúið. Þetta er heilmikið tekjutap fyrir þjóðarbúið þannig að við sjáum það hvað það er ákaflega mikilvægt að menn vandi sig í öllum svona mælingum eins og hv. þingmaður fór ágætlega yfir. Ég ítreka það að ég held að full þörf sé fyrir að þetta verði skoðað ofan í kjölinn, farið í sérstaka umræðu um þetta mál við framkvæmdarvaldið, um hvað menn eru að gera. Er verið að vinna í þessum málum eða er þetta eitthvað sem menn hafa sætt sig við, að það séu bara einhverjar skekkjur o.s.frv.? Allt hækkar þetta verðbólguna og verðlag í landinu. Við sjáum að hækkanir ríkisstjórnarinnar um áramótin í fjárlögunum eru að skila hækkun á vísitölu. Ég nefni sem dæmi hækkun á kolefnisskatti ríkisstjórnarinnar, (Forseti hringir.) hann skilaði hækkun á vísitölunni upp á 0,1%, svo dæmi sé tekið.