151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[17:24]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni prýðisræðu og innlegg í umræðuna. Ég ætla að ítreka það sem við ræddum hér fyrr í andsvari að við eigum að geta stigið skrefið til fulls. Mikilvægur liður í því, af því að við tölum um kringumstæðurnar og hv. þingmaður kom inn á það í sinni ræðu, er verðstöðugleikinn. Nú er verðstöðugleiki eftirsóknarverður í hagstjórnarlegu tilliti. Við getum bætt við heilbrigðum hagvexti og fullri atvinnu, eins og það er kallað. Til að okkur takist að klára þetta í efnahags- og viðskiptanefnd, og ég hvet hv. nefnd enn og aftur til að nýta tækifærið og klára þetta, verðum við aðeins að klóra okkur í kollinum. Ég held reyndar að flestir hagfræðingar séu akkúrat núna að klóra sér í kollinum yfir því að við séum með verðbólgu sem er rétt rúmlega yfir verðbólgumarkmiði og vikmörkum. Við erum, eins og margir hafa sagt í þessum ræðustól, að ganga í gegnum dýpstu efnahagskreppu í 100 ár þar sem er mikill framleiðsluslaki og mikið atvinnuleysi. Ég ætlast ekki til að hv. þingmaður svari þessu, en ég held að það sé mikilvægt að við nýtum tækifærið hér og ræðum þessa hluti, hvað er í gangi. Við erum með sjálfstæða peningastefnu og ég veit að það verður brugðist við með réttum hætti. Hófleg verðbólga er ekki endilega slæm, sérstaklega ekki ef hún er á eftirspurnarhliðina. Það er eftirspurn eftir vöru og þjónustu og um leið afleidd eftirspurn eftir vinnuafli og það er heilbrigt og það fylgir hagvexti. Kostnaðarverðbólga getur hins vegar verið slæm. Við þekkjum það frá því við vorum að fella gengið (Forseti hringir.) og kostnaður við aðföng hækkaði. Hvað útskýrir þessa verðbólguhækkun eða verðlagshækkanir núna?