151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[17:29]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég ætla að byrja á því að hafna þeirri skýringu að gjaldskrárhækkanir sem er að finna í bandormi sem við samþykkjum hér, tekjubandormi, samhliða fjárlögum, séu skýringin. Þær voru almennt 2,5% sem er undir þeirri verðbólgu sem er og draga þannig úr henni. Hv. þingmaður situr ásamt mér í hv. fjárlaganefnd og við höfum verið á fullri ferð að bregðast við ástandinu og koma peningum út í hagkerfið, í vinnu. Hér er oft sagt í umræðunni að betra sé að gera meira en minna. Þetta bar brátt að og þetta var mikið sjokk og högg á skömmum tíma og það má eiginlega lýsa þessu á þann veg að allt þingið hafi brett upp ermar í viðbrögðum og sett aukna peninga í fjárfestingar, í framkvæmdir, í nýsköpun. Og svo tölum við mikið hér um sjálfvirka sveiflujafnara þar sem bæturnar koma hratt inn og tekjurnar falla. En ég velti því fyrir mér hvort það sé einhver lína þarna þar sem hægt er að snúa þessu við og segja: Við erum farin að gera of mikið. Ég held að þegar viðspyrnan hefst þá verði það mjög verðugt verkefni að halda aftur af eftirspurnarverðbólgu.