151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

slysatryggingar almannatrygginga.

424. mál
[18:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og vera ber þá verður farið í þessa vinnu eftir að vinnu Alþingis við gerð frumvarpsins er lokið þannig að leiðsögn Alþingis liggi fyrir varðandi slíkan lista. Það hefur auðvitað ítrekað verið gagnrýnt að reglugerð hafi ekki verið sett um atvinnusjúkdóma en í frumvarpinu er lögð sú skylda á ráðherra að gera það. Ég sé í fyrsta lagi fyrir mér að reglugerð af þessu tagi yrði sett í samráðsgátt. Ég held að það skipti mjög miklu máli og ekki síst vegna þess að sú ábending sem kemur fram í máli hv. þingmanns er hárrétt, það er vandséð að listi yfir slíka sjúkdóma yrði tæmandi, enda kom það til að mynda fram í umsögn Öryrkjabandalagsins við frumvarpið á sínum tíma að það væri umhugsunarefni. Lögð er áhersla á að til eru góðar leiðbeiningar í þessum efnum og við þurfum þá a.m.k. að vita, það þarf að liggja fyrir með mjög skýrum hætti, til hvaða þátta tryggingin nær. Það er auðvitað mjög sjaldgæft núna að sótt sé um bætur vegna atvinnusjúkdóma til Sjúkratrygginga en með breytingu á lögunum viljum við bæði skýra og undirstrika tryggingavernd þessara laga þegar kemur að atvinnusjúkdómum ef þeim kemur til með að fjölga. Markmiðið með lögunum er bæði að skýra þessar heimildir, að tryggja betri undirstöður, og bæta réttaröryggið þannig að við séum að tala enn skýrar. En ég árétta það sem ég sagði hér fyrr í mínu svari að það er mjög mikilvægt að vinna af þessu tagi fari þannig fram að hún rati í samráðsgátt stjórnvalda og fái umsagnir.