151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[18:57]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Það sem er hægt að bæta við þá upptalningu sem ég var með hér — um hagkvæmni, sjálfbærni, sterkara samfélag, lýðræðishalla, hinn augljósa ávinning af stærri stjórnsýslueiningum, að geta tekið við verkefnum og geta bætt við fólki o.fl. — er kannski tímalínan. Þetta hefur býsna lengi verið í umræðunni. Frá 2006 hefur ákaflega lítið gerst í sameiningu sveitarfélaga þar til Múlaþing varð til í sumar og í fyrra sameinuðust Sandgerði og Garður og Breiðdalsvík við Fjarðabyggð. En þess á milli hefur verið mjög lítil hreyfing í þessa átt og satt best að segja furðulega lítil umræða vegna þess að þetta er viðvarandi mál.

Síðan kemur þetta upp, væntanlega á síðasta landsþingi sveitarfélaga sem hefst í upphafi hvers kjörtímabils. Þá virðist allt í einu kominn miklu sterkari hljómgrunnur fyrir því að gera þetta á stærri skala. Við leggjum af stað með þingsályktuninni og það er meiri samhljómur en áður, bæði með sveitarstjórnarmönnum og með aðilum hér á Alþingi, í stjórnmálum og á landsvísu; það skapast stemning fyrir þessu. Þess vegna leggjum við af stað í þetta verkefni með alla 11 liði þingsályktunarinnar til að efla sveitarstjórnarstigið í því að stíga þetta skref. Það sem síðan hefur bæst við er auðvitað Covid og sveitarfélögin þurfa að vera býsna sterk til að takast á við það. Mörg hver af þeim minni eiga augljóslega erfitt með það, hafa einfaldlega ekki borð fyrir báru, hafa minni slagkraft. (Forseti hringir.) Ég get ekki rökstutt af hverju íbúafjöldamarkið var fellt út 2011. Ég býst við að litið hafi verið svo á að það væri tilgangslaust.