151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[19:01]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Herra forseti. Í raun held ég að við getum bara fullyrt að það sé hvergi niðurnjörvað eða klappað í stein hver þessi skilgreining á sjálfbærni sveitarfélaga er nákvæmlega. Það var það sem ég nefndi hér. Það er m.a. umdeilt að miða við þúsund íbúa. Margir segja: Það er allt of lítið. Af hverju þúsund? Hvernig funduð þið þessa tölu út? Og sagt er: Er ekki skynsamlegra að leita að leið til að reyna að skilgreina hvað er sjálfbært? Í mínum huga er sjálfbært sveitarfélag undir eigin vélarafli, ef svo má segja, eigin tekjum að stærstu leyti; getur staðið fyrir allri lágmarksgrunnþjónustu án þess að þurfa að leita til annarra sveitarfélaga. Hvar mörkin eiga að vera nákvæmlega þori ég hins vegar ekki að fullyrða.

Við getum hins vegar sagt öfganna á milli að sveitarfélag sem sinnir nánast ekki orðið neinni lögbundinni þjónustu, er augljóslega á stærra svæði með málefni fatlaðra, er undir yfirstjórn annars sveitarfélags vegna barnaverndarmála, er með grunnskólann sinn, og jafnvel leikskólann, sem er reyndar ekki lögbundin þjónusta svo merkilegt sem það hljómar, í öðru sveitarfélagi og öll íþróttamál og æskulýðsmál o.s.frv. Það er augljóslega ekki sjálfbært ef öll þessi mál væru hjá nágrannasveitarfélaginu og sveitarfélagið ræki ekkert sjálfstætt og fengi þar fyrir utan meginþorra tekna sinna frá jöfnunarsjóði. En hvar mörkin eiga nákvæmlega að vera liggur ekki fyrir. Á að miða við einn þriðja úr jöfnunarsjóði eða 40%? Eða 20%? Ég skal ekki fullyrða það nákvæmlega. En það er eitt af því sem við gætum reynt að nálgast í þessari vinnu ef við viljum finna málamiðlanir, ef við viljum gera það sem ég var að tala fyrir í minni ræðu, gera það sem við stjórnmálamenn eigum að gera, að hlusta og reyna að leita leiða til að fá breiðari sátt á bak við málin.