151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[19:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Markmið þessa frumvarps eru ágæt. Hvort töfratalan 1.000 búi til sjálfbært sveitarfélag fer væntanlega eftir aðstæðum á hverjum stað fyrir sig. Ég hef svo sem ekkert mikið við markmið frumvarpsins að athuga en eins og ég kom inn á í andsvari við ráðherra þá er hér heimild ráðherra til að sameina sveitarfélög sama hvað, þ.e. þegar allir frestir eru liðnir og allt því um líkt þá getur ráðherra einfaldlega bent á ákveðin sveitarfélög og sagt að þau skuli sameinast. Þar dreg ég alla vega línu því að ef við eigum að virða sjálfsstjórnarhugtak og lýðræðishugtak stjórnarskrárinnar hefur rökin einfaldlega þrotið. Ef það er rétt sem hæstv. ráðherra segir, að hvatarnir og hagkvæmnin á bak við sameiningarnar sé eins mikil og haldið er fram, ættu þau rök að duga. Það ætti ekki að þurfa kröfu ráðherra til sameiningar.

Við megum ekki gleyma einu; það er réttur fólks til að hafa hlutina ekki eins hagkvæma og mögulegt er. Það er margt sem hefur áhrif á hagkvæmni ef við förum út í pælingar eins og velsæld, t.d. velsældarmarkmiðin sem ríkisstjórnin hefur lagt til. Það eru fleiri hlutir sem stuðla að velsæld og góðu samfélagi en einungis peningalegur afgangur til verkefna. Það eru ýmsir þættir samfélaga sem eru ekki mælanlegir með peningalegum tölum sem hafa áhrif á það hversu vel heppnað hvert samfélag er.

Af þeim sökum tel ég að við ættum ekki að hafa þetta úrræði ráðherra til staðar því að ef því er beitt, ef þvinguninni er beitt, verður niðurstaðan einfaldlega aldrei góð. Það er búið að reyna að fara í gegnum allar frjálsar sameiningar samkvæmt þeim lögum sem við höfum. Viljinn fram að þessu hefur verið að það gangi ekki, út af öllum þeim ástæðum sem hafa komið fram í því ferli. Það er lýðræðisleg niðurstaða sem ráðherra ætti ekki að ganga gegn, heldur ganga inn í og vinna úr þeim vandamálum sem þar koma fram, skilja af hverju viðkomandi sameining á ekki að eiga sér stað eða af hverju það er mótþrói gagnvart henni, af hverju fólk vill ekki sameinast. Það geta verið mjög málefnalegar ástæður fyrir því.

Þegar allt kemur til alls, þegar allir frestir klárast, þá þarf ráðherra að hafa frumkvæði að sameiningunni og sameina sveitarfélög, sama hvaða rök eru til staðar af því að það er verið að brjóta lög um lágmarksfjölda. En ég tel að það sé einfaldlega verið að brjóta á þeim gildum sem við höfum í lögum um sveitarfélög og sjálfsstjórn þeirra, um lýðræði sem við erum með samkvæmt stjórnarskrá, ef ráðherra hefur heimild til að þvinga fram sameiningar. Ég tel að þau ákvæði sem hefur verið vísað í hér áður, um lágmarksfjölda íbúa í sveitarfélögum, hafi einmitt verið með þann sama galla. Slíkar sameiningar, ef þær hafa verið gerðar án atkvæðagreiðslu, og það er í rauninni ekki hægt að gera neitt í því, hafa ekki verið góðar sameiningar. Kannski hafa þær reynst vera góðar. Allt í lagi. Það sjónarmið er til að sjálfsögðu að væntingar fólks til sameiningarinnar hafi ekki verið réttar og niðurstaða kosninganna ekki byggst á því sem gerðist síðan raunverulega þegar fólk þurfti að taka sameiginlegar ákvarðanir og gerði það vel. Það breytir því ekki að það eru rök sem eiga að koma fram í umræðu um frjálsar sameiningar sveitarfélaga til að byggja á lýðræðislegum niðurstöðum.

Þetta er tvímælalaust vandamál. Við erum föst í þessum aðstæðum og eina leiðin til að vinna okkur úr þeim, í áttina að því sem gæti verið betra, er að gera það með samtali, með hvötum, með rökum en ekki með þvingunum. Þvinganir búa óhjákvæmilega til ákveðna kergju sem tekur tíma að vinna úr. Kannski dofnar hún með tímanum og fljótt af því að sameiningin er í alvörunni góð hugmynd sem kemur í ljós þegar loksins verður af henni. Þá þurfum við að vinna þeim mun meira að leiðum að því hvernig við getum látið það gerast, t.d. með því að hafa ákveðna sýndarsameiningu til að sjá hvernig það gengur. Það að tvö eða fleiri sveitarfélög séu í rauninni ekki sameinuð en starfi eins og þau séu sameinuð — kannski er það hagkvæmt mat, bara til þess að prófa. Allt er betra en þvingunin því að með henni erum við tvímælalaust að brjóta gegn hugtökum um sjálfsstjórn og lýðræði.