151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[19:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir hans innlegg og að mæla fyrir þessu frumvarpi. Ég tók til máls þegar við fjölluðum um þingsályktunartillöguna sem frumvarpið byggir á og þá var mikið farið í gegnum söguna og hvernig þetta hefur verið. Eins og hér hefur verið nefnt er sameining sveitarfélaga afskaplega viðkvæmt mál. Ég hef verið þeirrar skoðunar og er þeirrar skoðunar enn að ekki eigi að beita lögþvingun og var með fyrirvara hvað það varðaði, þó að ég hafi tekið undir markmið þingsályktunartillögunnar sem var samþykkt á síðasta ári. Svo erum við að vinna með þetta frumvarp áfram.

Ég vil byrja á því að segja að það er fyrst og fremst lágmarksíbúafjöldinn sem ég er ósátt við. Ég er ánægð með 2. gr., þar sem fjallað er um heimild til að nota fjarfundabúnað á fundum sveitarstjórna og nefnda. Við höfum farið hraðar inn í þá veröld eins og við flestöll vitum í gegnum Covid. Það er afskaplega nauðsynlegt að geta haft fjarfundabúnað í handraðanum þó að maður leggi það til að hann sé fyrst og fremst notaður þegar ekki er hægt að funda á staðnum. En ef yfir stór landfræðileg svæði er að fara, eins og er í nýju Múlaþingi, er væntanlega kærkomið að geta fundað með þessum hætti. Ég er hrifin af því sem þar gerðist, samtali íbúanna, hvernig þau útfæra þetta og prófa auðvitað, það eru tvö ár í þessu ferli. Þau vinna með sína útfærslu á því í jaðarbyggðunum með alvöru heimastjórnir sem hafa eitthvert vald, ráða einhverjum hlutum en eru ekki eins og heimastjórnir sem við höfum þekkt fram að þessu sem hafa ósköp lítið að segja. Það er víða, því miður, að jaðarbyggðirnar hafa ekki komið nógu vel út og það þarf ekki einu sinni jaðarbyggðir til þess. Mér hefur alltaf fundist miklu mikilvægara, af því að ég held að byggðastefna okkar sé sú að við viljum reyna að halda byggð í öllu landinu, að styrkja og styðja við þessi sveitarfélög, eins og talað er um í byggðastefnunni, óháð því hvort þau tilheyra stærra samfélagi eða minna. Það hefur alveg sýnt sig að þau eru ekkert endilega að pluma sig vel. Það eru auðvitað margir þættir sem þar koma til. Það er ekki endilega bara það að þau séu inni í stærri sveitarfélögum eða utan þeirra af því að svo erum við með lítil sveitarfélög sem vilja ekki sameinast af því að þau hafa góða tekjustofna og hafa engan hug á því að deila þeim. Þrátt fyrir það sækja þau ýmsa þjónustu inn á stærra svæði. Það er kannski það sem ráðherra var dálítið að tala um, að styrkja þjónustuna.

Þeim sem eru hlynntir lögþvinguðum sameiningum hefur orðið tíðrætt um það að hægt sé að ná fram miklu meiri og betri þjónustu. En ég tel að eftir því sem fjarlægðin er meiri á milli íbúanna og stjórnsýslunnar sé líka ákveðin hætta á því að fjármagnið fari ekki endilega þangað sem íbúar á minni stöðum eða jaðarstöðum vilja að það fari. Það eru sannarlega mörg sveitarfélög sem hafa sameinast þar sem sameiningin er til fyrirmyndar en það er ekki bara samhengi á milli stærðar og hagkvæmni eða þeirrar þjónustan sem er veitt.

Ráðherra fór hér yfir rökstuðninginn fyrir 1.000 manna íbúamarkinu. Það var enginn sérstakur rökstuðningur fyrir því í skýrslunni um stöðu sveitarstjórnarstigsins og eins og ráðherra kom inn á fannst sumum að það ætti að vera meira, þetta væri of lítið. Það er eitt af því sem mér finnst athugunarvert, pínulítil sveitarfélög gætu þurft að sameinast í tvígang á mjög skömmum tíma og ef þau gera það ekki þarf ráðherra að grípa inn í og taka á því. Ég tek undir með hv. þingmanni sem talaði á undan mér hvað það varðar, það er aldrei gott ef búið er að reyna einhverjar leiðir og þær ganga ekki að ætla að fara í einhvers konar lögþvingun. Það er ekki gott fyrir þessa litlu staði og ekki þeim til framdráttar.

Svo veltir maður því fyrir sér ef það eru um 5% af íbúum sem eru í þessari stöðu, hvaða stórkostlegu áhrif það hafi að þjappa þeim saman, jafnvel yfir stór landsvæði. Það er sannarlega talað um að horfa eigi til landfræðilegrar aðstöðu og skoða það og allt þetta. Þá erum við kannski jafnvel farin að búa til einhvern mun á milli sveitarfélaga ef sum fá landfræðilega stöðu og þurfa ekki að sameinast á meðan önnur þurfa að gera það. Ég tel ekki að við þurfum íbúalágmark til að tryggja góða þjónustu. Það er og verður áfram samið á milli sveitarfélaga um alls konar þjónustu, slökkvilið, félagsþjónustu, barnavernd og jafnvel talið gott að hún nái á milli sveitarfélaga vegna þess að margt af þessari nærþjónustu er ágætt að geta haft ekki of nærri fólki þegar um erfið mál að ræða.

Fyrst og fremst snýr þetta alltaf að því að það sé atvinnulíf og, eins og ráðherrann sagði, að hægt sé að veita grunnþjónustu. Hver á hún að vera? Við erum ekki enn þá komin alveg niður á þá niðurstöðu, hver lágmarksgrunnþjónustan er. Við tölum gjarnan um heilbrigðisþjónustu, menntun og eitthvað slíkt en við höfum samt ekki komið okkur endanlega saman um það. Ég veit að sú vinna hefur verið í gangi. En það þarf líka að huga að því hvaða ívilnunum er hægt að beita. Við höfum talað um ívilnanir þegar við höfum velt fyrir okkur mönnun í heilbrigðiskerfinu um hinar dreifðu byggðir. Þrátt fyrir að við höfum eflt það gríðarlega á þessu tímabili þá búum við samt við að læknar fást ekki til starfa í dreifðum byggðum. Þeir treysta sér ekki til þess að taka jafnvel einir ábyrgð, finnst það flókið og erfitt. Það er mjög margt undir sem hægt væri að gera og þarf ekki endilega að vera svona.

Eins og hv. þingmaður þekkir, af því hann nefndi sína heimahaga, þá heyrum við þegar við förum um kjördæmið fyrst og fremst talað um sameiningar varðandi frumvarpið og mér finnst það kannski standa í vegi fyrir því að margt annað ágætt nái fram að ganga. Margar sameiningar hafa tekist ágætlega og aðrar ekki. Stærri sveitarfélög kvarta gjarnan yfir því að þau séu að borga með ýmissi þjónustu en þá þarf auðvitað að horfa til þess hvort ekki sé verið að rukka nóg fyrir hana eða hvað sé þar á bak við. Reykjavík og sveitarfélög á stórhöfuðborgarsvæðinu eru líka með margs konar samstarf sín á milli þrátt fyrir að þau séu stór.

Ég skil að ákveðnu leyti hugmyndafræðina á bak við frumvarpið en ég er jafn sannfærð áfram um að jaðarsvæði verði áfram jaðarsvæði. Mér finnst það hafa orðið raunin víða þar sem stærri sameiningar hafa verið, því miður. Þegar menn eru í rauninni á ákveðinni endastöð og svo er búið að flytja stjórnsýsluna í burtu er hjartað dálítið farið þegar staðan er þannig. Það eru dæmi um þetta.

Vissulega á ekki að loka neinum dyrum og við getum horft til langrar framtíðar en ég held að þetta sé eitthvað sem við séum ekki tilbúin til að gera. Og af því að ég nefndi áðan Múlaþing þá vil ég líka nefna Skútustaðahrepp og Þingeyjarsveit, búið er að leggja gríðarlega vinnu í að búa til gott upplegg að sameiningu þeirra sveitarfélaga. Það hefur tafist fyrst og fremst út af Covid. Ég bind vonir við að það geti gengið eftir með góðum brag en þar eru íbúarnir líka sameinaðir á bak við verkefnið. Eins og ég segi, þetta er bara svo mikið hjartans mál og við þekkjum það í gegnum tíðina að við höfum verið að flytja verkefni frá ríki til sveitarfélaga, þetta á að vera einn liður í því að sveitarfélög verði færari um að taka við þeim, að það hefur ekki alltaf verið gleði með þá tilflutninga. Sveitarfélögin telja sig betri til þess að sinna þjónustunni en kvarta alltaf yfir því að ríkið borgi ekki nægjanlega með verkefnunum og kalla eftir meira fjármagni. Mér finnst það ekki endilega vera ástæða til að sameina sveitarfélög. Ég held að þau geti sameinast um verkefni.

Hér segir að sveitarfélög eigi að verða sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi. Það er náttúrlega ekki lýðræðislegt um leið og farið er í einhvers konar lögþvingun. Í frumvarpinu er vitnað til nefndarálits umhverfis- og samgöngunefndar þegar fjallað var um þingsályktunartillöguna og ég get að mörgu leyti tekið undir hvað það varðar að gefa þarf svigrúm og annað slíkt. Ég mun alla vega ekki vera sátt við frumvarpið eins og það liggur fyrir í þessari útfærslu.

Þegar verið er að tala um að framselja vald til annarra stjórnsýslueininga, til sveitarfélaga eða byggðasamlaga, þá veit ég ekki hvort það minnkar mikið. Það hefur verið gert hér á þessu stóra svæði. Það sem við myndum kannski fyrst og fremst sjá í þessu öllu saman væri sparnaður í yfirstjórn, sannarlega, því sveitarstjórum myndi fækka og hugsanlega myndi fækka í byggðaráðunum og öðru slíku, en ef Austfjarðadæmið væri tekið hér til viðmiðunar þá verður kannski ekki mikill sparnaður. Hér segir að frumvarpið feli í sér tækifæri fyrir byggðarlög til að hefja samvinnu á lýðræðislegri grundvelli en áður um að standa vörð um sameiginlega hagsmuni, efla stjórnsýslu og auka þjónustustig — þetta er góð setning, en mér finnst hún ekki vera í samhengi við lögþvingunina.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara koma hingað aftur og halda til haga fyrirvara mínum um þetta mál. Ég hef starfað í sveitarstjórn þegar sameining var þannig að ég er búin að ganga í gegnum það. Það eru þó ekki nema tvö byggðarlög sem eru með ágætissamgöngur sín á milli þó að þær séu það ekki alltaf frá þeim. Það hefur að mörgu leyti tekist vel og öðru leyti ekki, eins og gengur og gerist. Það eru samt komin 14 ár, held ég að sé rétt hjá mér, það fimmtánda líklega að byrja, ég held að það hafi verið árið 2006. Auðvitað sameinuðumst við ekki raunverulega fyrr en 2010 þegar Héðinsfjarðargöng voru opnuð en lærðum árin fjögur á undan að vinna á fjarfundum.

Til að ljúka þessu vil ég segja að ég vona að nefndin, ég veit að hún fær töluvert af umsögnum um málið, vinni áfram með þetta verkefni miðað við þær umræður að við tökum líka sannarlega tillit til lýðræðislegra þátta. Það varðar dálítið mörg sveitarfélög. Þau eru a.m.k. 20 sem hér um ræðir, sem hafa lýst eindreginni andstöðu við þessi áform. Ráðherra kom inn á að á seinna þinginu hefði kannski verið meiri samhljómur með þeim. Ég hvet nefndina til þess að virða þau sjónarmið líka.