151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[19:25]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að óska hæstv. ráðherra til hamingju með að vera loksins kominn með þetta mál fram sem er auðvitað í kjölfar þingsályktunarinnar eins og hann fór svo ágætlega yfir. Ég ætla að leyfa mér að tala nær eingöngu um það er lýtur að sameiningu sveitarfélaga þó að hér séu fleiri greinar undir sem ég held að meiri sátt sé um og ég treysti nefndinni til að fara ágætlega yfir það. En eins og hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom inn á þá eru skoðanir mjög skiptar þegar kemur að því hvaða leið er best að fara. Ég ætla að segja til að byrja með að það er algjörlega nauðsynlegt að sveitarfélög á Íslandi sameinist og þá er ég að tala um í stórum mæli. Ég lít þannig á að bara sé um tvær leiðir að ræða í framtíðinni hjá okkur. Það er annars vegar að sveitarfélög fari í umtalsverðar sameiningar eða að við stofnum hér þriðja stjórnsýslustigið og mér finnst það síðri kostur.

Ég held að það sé mikilvægt í þessu samhengi að velta fyrir sér: Hvað er sveitarfélag? Hvað er það sem skilgreinir sveitarfélag og hvernig viljum við að sveitarfélög vinni? Hver er framtíð þessa stjórnsýslustigs? Ég verð að viðurkenna það, eftir að hafa fylgst með sveitarstjórnarmálum í töluvert langan tíma, að ég hef áhyggjur af þessu stjórnsýslustigi. Ég hef áhyggjur af því vegna þess að mismunurinn milli sveitarfélaga er orðinn svo gígantískt mikill. Það er orðið algengt að tala um höfuðborgarsvæðið og stærri sveitarfélög í landinu annars vegar og svo hin. Áherslur og hagsmunir þessara sveitarfélaga eru allt of ólíkir. Við sjáum það, til að mynda í umfjöllun um mál hér á þinginu, að Samband íslenskra sveitarfélaga á auðvitað erfitt með að tala fyrir munn allra sveitarfélaga því að þau eru bara ólík og hagsmunirnir eru ólíkir.

Ég finn það svo sannarlega í mínu kjördæmi, Suðvesturkjördæmi, að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eru oft á annarri línu en sveitarfélögin annars staðar á landinu og það er ástæða fyrir því. Þess vegna held ég að við neyðumst til að finna leiðir til að sameina sveitarfélög. Þúsund manna sveitarfélag er ekki í íbúum talið stórt eða mikið en ég átta mig á að flækjustigið getur verið töluvert mikið.

Mig langar í þessu sambandi að minna á að á Grænlandi, sem er töluvert stærra en okkar land, eru nú fimm sveitarfélög. Þeir fóru í gegnum gígantískar sameiningar og sveitarfélögin voru orðin fjögur en urðu svo fimm. Sveitarfélögin eru mikilvæg eining. Það er svo mikilvægt að við séum með öfluga stjórnsýslu á sveitarstjórnarstiginu og nærþjónustan skiptir íbúana hvað mestu máli. Ég held að flestir þingmenn hafi reynslu af því, þegar þeir tala við kjósendur sína, að það eru oftar en ekki málefni sveitarfélaganna sem brenna á fólki. Fólk hefur skoðanir á nærþjónustunni, þ.e. leikskólanum, skólanum, gatnagerð, samgöngur og þetta sem að stórum hluta er á herðum sveitarfélaganna. Ég held að það sé mikilvægt að við gefum sveitarfélögunum tækifæri til að þróast og þroskast til framtíðar og byggja enn frekar utan um þessa mikilvægu nærþjónustu sem þau hafa á sínu valdi svona að mestu leyti.

Þá kannski færi ég mig aðeins yfir í umræðuna um hver verkefni sveitarfélaganna séu og hver verkefni ríkisins. Ég veit að mikil vinna hefur verið unnin og það er kannski stöðug vinna að eyða þessum gráu svæðum, eins og oft er kallað, þar sem ekki er alveg ljóst hver fer með hvað eða hver á að borga fyrir hvað. Það er auðvitað algerlega óþolandi fyrir íbúa og þiggjendur þjónustu að vera kastað á milli stjórnsýslustiga, vera kannski með börn sem glíma við erfiðleika í skóla og vera kastað á milli Sjúkratrygginga til að fá greiðslu frá ríkinu, talmeinaþjónustu í skóla eða utan skóla, sálfræðiþjónustu og allt þetta. Þetta er auðvitað óásættanlegt því á endanum er um að ræða skattgreiðendur sem kjósa fólk til að sinna þessum málum. Við, hvort sem við erum hér á þingi eða hæstv. ráðherrar og svo aftur þeir sem eru í sveitarstjórnum, þurfum einfaldlega að finna leiðir til að veita slíka þjónustu með sem hagkvæmustum og bestum hætti. Við verðum þess vegna að útiloka þessi gráu svæði og hafa það skýrt hvert er hlutverk sveitarfélaganna og hvert er hlutverk ríkisins og svo þurfa sveitarfélögin, og þá kem ég inn á tekjustofnana, að hafa burði til þess að veita þá þjónustu sem þeim er falið að veita. Þar af leiðandi er óumflýjanlegt, í samtalinu um sveitarfélög og mikilvægi þess að þau verði stærri og öflugri, að tekjustofnar þeirra séu líka öflugri, kannski að einhverju leyti líka stöðugri. Það hlýtur að vera óumdeilt að það verður að vera hluti af samtalinu um þetta mál hér og framtíð sveitarfélaganna.

Ég átta mig á því að töluverður kurr er um málið, hvernig eigi að nálgast þetta. Og ég skil alveg sjónarmið þeirra sem segja að það eigi bara aldrei að fara í lögþvingaða sameiningu. Ég get alveg skilið þau sjónarmið. Ég er aftur á móti á þeirri skoðun að framtíð sveitarfélaganna og þróun sé það stórt og mikið mál að við verðum að þora að taka umræðuna um það hvernig við náum fram því markmiði sem við augljóslega verðum að ná fram, og ég held að við höfum ekkert endalausan tíma til þess, þ.e. að sveitarfélögin verði stærri og öflugri. Það kynnu margir að halda því fram að hér sé bara einhver höfuðborgarmanneskja að velta þéttbýlinu fyrir sér og auðvitað er þetta miklu flóknara þegar kemur út á landsbyggðirnar og þegar lítil byggðarlög eiga að sameinast öðru byggðarlagi sem er í nokkur hundruð kílómetra fjarlægð, ef því er að skipta, fjallvegir á milli og allt þetta. Það er ekkert einfalt í þessu og nærþjónusta, skólar, leikskólar og þess háttar þjónusta, þarf að vera nærri þeim stað sem íbúarnir búa á.

En það er margt annað sem líka snertir sveitarfélögin. Hæstv. ráðherra kom ágætlega inn á stjórnsýsluna, hún er orðin flóknari og við gerum miklu meiri kröfur til hennar í dag. Þar af leiðandi er auðveldara og betra fyrir sveitarfélögin eftir því sem þau eru stærri að vera með faglegri stjórnsýslu, upplýsingakerfi, ég tala ekki um skipulagsmálin sem algert torf er orðið að komast í gegnum, og fleira mætti tína til. Við höfum svo dæmi um að sveitarfélögin geti komið sér saman um alls konar verkefni. Við þekkjum það auðvitað, það eru almenningssamgöngur, sorp, slökkvilið og ýmislegt fleira sem sveitarfélögin hafa oft komið sér saman um og er í langflestum tilfellum skynsamlegt. Það gengur ekki alltaf snurðulaust fyrir sig og er líka ákveðnum vandkvæðum bundið. Ég þekki það hér á höfuðborgarsvæðinu að Reykjavíkurborg hefur t.d. oft viljað fleiri fulltrúa inn í byggðasamlögin í krafti stærðar sinnar. Hún nýtur engu að síður aukinna réttinda verandi stærsti eigandi þessara byggðasamlaga. En þá erum við líka komin inn á þetta með umboðskeðjuna. Hver kaus viðkomandi til að vera stjórnarformaður Strætós eða Sorpu og fara með þau mál fyrir hönd kjósenda? Þar erum við komin að þessari nærþjónustu sem sveitarfélögin hafa á sinni hendi. Það er þessi nálægð, þessi tilfinning, það eru ákveðin forréttindi að geta átt samtal við einhvern í sveitarstjórn vegna þess að þú hittir hann úti í búð eða á göngu; það er auðveldara að koma sínum málum á framfæri.

Það er kannski fullmikið sagt að sveitarfélögin séu lýðræðislegri vettvangur en það er mjög gott lýðræði á þeim vettvangi í ljósi þess að það eru svo margir sem koma að ákvarðanatöku. Sveitarfélögin eru öll með nefndir þar sem fólk kemur utan úr bæ til að taka þátt í starfi sem snýr bara að verkefni viðkomandi nefndar. Þetta verður alltaf flóknara þegar sveitarfélögin eru farin að vinna saman í byggðasamlagi og þá rofnar umboðskeðjan og þetta verður flóknara. Mér finnst það líka vera rök fyrir því að það er mikilvægara að sveitarfélagið sé þá bara stærra og burðugra og að fólk hafi tækifæri til að kjósa sína fulltrúa til að fara með sín mál. Svo getur það þekkst eins og í Reykjavík að vera með hverfaráð og það þekkist líka í mörgum af þeim sveitarfélögum sem hafa verið að sameinast að vilja hafa slík ráð í hverjum byggðarkjarna. Sveitarfélögin hafa þróað fína leið til að virða einmitt lýðræðið í því þannig að hlustað sé á raddir íbúa á hverjum stað fyrir sig.

Að þessu sögðu þá held ég að engum ætti að dyljast afstaða mín til frumvarpsins og þrátt fyrir að ég skilji hin sjónarmiðin þá tók ég eftir því að hæstv. ráðherra sagði: Við megum ekki gefast upp fyrir verkefninu. Ég ætla að taka undir það. Ég held að það sé ofboðslega mikilvægt að við finnum leiðir til þess að sveitarfélögin verði stærri og öflugri, hvort sem það er nákvæmlega sú útfærsla sem mælt er fyrir í frumvarpinu eða önnur útfærsla frá hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem myndi mögulega njóta meiri sáttar. Það væri óskandi að við næðum breiðri sátt um það hvaða leiðir verði farnar. Hæstv. ráðherra notaði það orðalag, ef ég man rétt, að svelta sveitarfélögin til sameiningar í gegnum jöfnunarsjóð. Þá er hann væntanlega að vísa í það sem oft er nefnt, að beita megi jöfnunarsjóði sem ákveðnu verkfæri til að hvetja til sameiningar. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki horft þannig á að það sé leið að svelta sveitarfélögin en ég held að jöfnunarsjóður hljóti að spila risastórt hlutverk þegar kemur að því að stækka og efla sveitarfélögin, þ.e. það er alla vega ótækt að reglur jöfnunarsjóðs séu með þeim hætti að þær vinni gegn hvata til sameiningar og hvetji sveitarfélög raunverulega frekar til þess að vera í óbreyttu ástandi. Það er auðvitað eitthvað óeðlilegt, það kunna að vera dæmi þess að það verði svoleiðis um ókomna tíð, að sveitarfélög fái stóran hluta af framfærslu sinni í gegnum jöfnunarsjóð. Mér þykir það óeðlilegt. Ég vil halda byggð í landinu og það kunna að vera einhver svæði sem eru þannig að erfitt er að afla skatttekna og þá koma tekjur frá jöfnunarsjóðnum og hann er auðvitað hugsaður þannig, þetta er til að auka jöfnuð á milli sveitarfélaga, en hvatinn má ekki vera sá að ekki sé stöðugt verið að horfa í það hvernig við getum hagrætt og hvernig við getum mögulega styrkt og eflt viðkomandi sveitarfélag.

Ég óska hv. umhverfis- og samgöngunefnd góðs gengis í þessu verkefni sem ég veit að er umdeilt og uppi eru mjög ólík sjónarmið. Ég ítreka að ég held að það sé ofboðslega mikilvægt að við komumst að einhverri niðurstöðu um það hvernig við viljum sjá þetta til framtíðar. Ég ítreka það sem ég sagði áðan: Það er annaðhvort að fara þá leið að sjá til þess að sveitarfélög sameinist hratt og örugglega og verði stór og burðug eða að velta upp þeirri leið að stofna þriðja stjórnsýslustigið. Mér finnst óþarfi að horfa til þeirrar leiðar en það er í mínum huga eini valkosturinn á móti því að horfa ekki til breytinga á stærð sveitarfélaga eins og þau eru í dag.