151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[19:39]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Hér hefur verið lagt fram frumvarp af hæstv. sveitarstjórnarráðherra í framhaldi af þingsályktun um sama efni, um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023, sem ráðherra mælti fyrir á síðasta þingi. Þetta var þingsályktun nr. 21/150. Hún var hugsuð sem fyrsta skref til að framfylgja markmiðum um að styrkja sveitarstjórnarstigið. Það hefur verið stefna okkar jafnaðarmanna í áranna rás að styrkja sveitarstjórnarstigið og efla sjálfsstjórn sveitarfélaga.

Þetta frumvarp, herra forseti, er mikilvægt og er ekki óumdeilt. Það fjallar um viðkvæm efni, fjallar um nærsamfélög okkar og þau sem eru lítil og viðkvæm, fámenn og eiga á brattann að sækja. Þetta frumvarp talar til samtímans en fyrst og fremst þó til framtíðarinnar, styður þau markmið að sveitarstjórnarstigið skuli vera öflugt. Nærþjónustu af ýmsu tagi, samfélagsþjónustu, sé best fyrir komið í heimabyggð, í nærsamfélaginu, og hún sé skipulögð og þróuð í samræmi við þarfir í viðkomandi samfélagi.

Þeir samfélagslegu þættir sem við höfum væntingar um að okkur bjóðist eru sífellt að vaxa að umfangi. Þróunin í kröfum íbúanna er um gott atlæti til jafns við það sem best gerist á landsvísu. Alls staðar er þetta uppi, bæði hvað varðar tæknileg atriði og félagslega þjónustu, svo dæmi sé tekið. Það er auðvitað smáum sveitarfélögum oft erfitt að annast um það og hreinlega stundum um megn nema til komi verulegur stuðningur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

En við þekkjum það líka, herra forseti, að ýmis smærri sveitarfélög um landið eiga í samstarfi um einstaka málaflokka, stofna með sér samlög sem eru útfærð víða með ágætum en víða eru núningsfletir og sú yfirsýn og heildræna nálgun sem sóst er eftir næst kannski ekki fyllilega ef ekki er unnið í einni og sömu stjórnsýslueiningunni.

Eitt helsta álitamálið í frumvarpinu er að öllum líkindum, og má telja víst, ákvæði 1. gr. um að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga skuli vera 1.000 frá árinu 2026 að telja. Ef við horfum til sögunnar þá hefur umfang sveitarfélaga á Íslandi verið með ýmsu móti og tekið miklum breytingum. Eins og ég nefndi áðan, í andsvari mínu við ráðherra, voru 203 sveitarfélög í landinu árið 1910 en urðu enn fleiri á árunum 1948–1952. Þá urðu þau 229. Sá fjöldi hélst nokkurn veginn stöðugur næstu áratugi eða til ársins 1986 þegar þau voru 222. Síðan urðu gjörbreytingar á næstu tveimur áratugum og þar á eftir með mikilli samrunahrinu sem endaði á því að árið 2006 var fjöldi sveitarfélaga kominn niður í 79. Það sem réð þessu var auðvitað að þjónustuverkefni sem áður voru á hendi ríkisins voru flutt yfir til sveitarfélaganna sem knúði þau til þess að breyta til og sameinast til að ná með farsælum hætti yfir verkefnin. Sveitarfélögin þurftu að vera öflugri, þau þurftu að vera burðugri og stærri sem þjónustu- og stjórnsýslueiningar. Eftir þessa hrinu tók við frekar hæg samrunaþróun en nú eru sem sagt sveitarfélög um 72 talsins og þar við situr.

Það má auðvitað segja og við getum sameinast um það að æskilegt væri að allt þetta gæti fengið að þróast með sínu lagi og með frjálsum hætti eins og það hefur mestan part gert. En hér er stigið skref til að marka leiðina og með einum eða öðrum hætti verðum við að gera það. Hér er mörkuð sú stefna að íbúafjöldi í sveitarfélagi skuli vera að lágmarki 1.000. Það er íbúatala sem er kannski ekki raunhæf en hér er farið af stað.

Sveitarfélögum hefur fækkað á undanförnum árum eins og ljóst er af máli mínu. Þeim hefur fækkað um 125 á síðustu 27 árum með frjálsum sameiningum og það er veruleg fækkun, en í dag eru þó ríflega 54% sveitarfélaganna eða 39 með færri íbúa en 1.000 og sjö fámennustu sveitarfélögin eru með íbúafjölda á bilinu 47–93 talsins. Í nútímasamfélagi þar sem við gerum margvíslegar væntingar og kröfur til opinberrar þjónustu eiga sveitarfélög af þessari stærðargráðu erfitt með að veita ýmislega lögboðna þjónustu, svo ekki sé nú talað um fjölbreytta félagslega þjónustu. Hvernig snúa þessi sveitarfélög sér út úr svona verkefnum? Þau semja væntanlega við nágrannasveitarfélögin. Aðstæður hafa líka verið þannig að þessi litlu sveitarfélög verða dálítið einsleit. Það er eitt af markmiðunum með þessari vinnu að stuðla að því að fjölbreytileikinn, lýðfræðilegur fjölbreytileiki, vaxi og verði þannig að eðlilegt megi teljast í samanburði við sveitarfélög almennt í landinu.

Rökin fyrir því að stækka sveitarfélögin eru því augljós. Þau eru hin sömu og þau hafa svo sem verið áður, að gera sveitarfélögin að öflugri stjórnsýslueiningum fyrir íbúana. Það er auðvitað fagnaðarefni að efla sveitarstjórnarstigið. Við höfum oft fjallað um að margvísleg verkefni eigi fremur heima í nærsamfélaginu, eins og nefnt hefur verið. Heilbrigðisþjónustan hefur oft verið tilgreind, öldrunarþjónustan sömuleiðis. Sveitarfélögin hafa hins vegar tekið fremur þunglega í þetta. Sporin hafa hrætt þau. Kostnaðargreining á þessum þáttum hefur þótt ófullkomin og sveitarfélög og sveitarstjórnir hafa ekki treyst því að greitt sé fyrir þjónustuna með þeim hætti sem nauðsynlegt er. Enginn efast um það og reynslan sýnir það, t.d. í tilraunaverkefnum á Hornafirði og Akureyri, að þjónustan verður betri, almenn ánægja með þjónustuna verður meiri og skipulag hennar samfelldara og almennt hagkvæmara, en hún verður engu að síður ívið kostnaðarsamari, að því er talið er, vegna þess m.a. að veitt er betri og meiri þjónusta.

Af nógu er að taka þegar talað er um þá þætti sem íbúar leggja áherslu á undir eðlilegum kringumstæðum í nærsamfélagi sínu. Hæstv. ráðherra fór yfir ýmis atriði sem lúta að þeim markmiðum sem sett eru með frumvarpinu. Það er, eins og ég nefndi, að gera sveitarfélögum kleift að standa á eigin fótum og þurfa ekki að reiða sig á samlagsform, eins og vikið hefur verið að, heldur að þau geti orðið sjálfbær að þessu leyti. Það er að auka fjölbreytileikann varðandi íbúaþróun og aldurssamsetningu. Það er mikilvægt. Menn hafa líka horft til þess að stærri einingar ættu að geta verið hagkvæmari í rekstri með sameiningu t.d. sveitarstjórna. Það eru auðvitað ekki neinar stórar tölur en þær telja þó. Það eru mörg atriði að þessu leyti sem ástæða er til að hafa í huga. Það verður sérstaklega áhugavert að fylgjast með þróuninni fyrir austan í Múlaþingi, sem er nýtt sveitarfélag. Þar ætla menn að fara þá leið að vera með dreifstýringu í mjög umfangsmiklu sveitarfélagi. Þetta er það sem hægt er að gera. Við höfum líka reynslu af Vestfjörðum þegar sveitarfélögin voru sameinuð þar með tilkomu Ísafjarðarbæjar. Þar er reynslan allgóð og alls ekki víst að þau litlu sveitarfélög sem þar voru fyrir myndu geta spjarað sig á eigin forsendum. Eins og ráðherra kom inn á er það núna, þegar Covid hefur dunið yfir, einn hvatinn enn til að snúa bökum saman og sameina eða a.m.k. að hugleiða það alvarlega.

Það eru skiptar skoðanir um efni þessa frumvarps. Ég skynja það mjög víða úti á landi. Þetta eru tilfinningaleg atriði og sum sveitarfélög haga rekstri sínum með þeim hætti raunar, þau minni, að það næst allvel utan um hefðbundinn grunnrekstur. Það gerist þá sérstaklega vegna þess að þátttaka Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er umtalsverð. Það er spurning hvort það sé sjálfbærni í raun og hvort þau sveitarfélög séu ekki orðin mjög viðkvæmar rekstrareiningar ef breytingar verða á framlögum jöfnunarsjóðs, eins og hefur dunið yfir á síðustu misserum. Við heyrum líka á tali sveitarstjórnarfulltrúa að 1.000 íbúa sveitarfélag sé ekki miklu betur sett en 500 íbúa sveitarfélag og ef það eigi að sameina á annað borð þá þurfi að gera það með miklu öflugri hætti og hugsa stærra. Það eigum við mögulega að gera en við höfum kannski ekki verið andlega tilbúin að veita því möguleika til að þróast. Þó er rétt að taka tillit til þeirrar staðreyndar sem við sjáum fyrir austan. En allt byggist þetta líka á landfræðilegum þáttum og menn þurfa að geta tryggt að samgöngur séu góðar.

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp gengur nú til umhverfis- og samgöngunefndar og það verður fróðlegt að fá að taka þátt í umræðu og skoðanaskiptum um það. Einn þátturinn sem hefði átt að hvetja til með öflugri hætti en við höfum orðið vör við eru auðvitað bættar samgöngur, jarðgangagerð og annað slíkt. Við höfum dæmi úr Fjallabyggð þar sem samgöngubót með jarðgöngum, Héðinsfjarðargöngum, var forsendan en við höfum önnur dæmi þar sem menn tregðast enn við. En ég læt hér máli mínu lokið og er spenntur að fjalla um þetta mál frekar í umhverfis- og samgöngunefnd.