151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[20:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langaði að skipta þessu í tvennt og fara núna aðeins yfir það hvert ég tel vandamálið vera í hnotskurn. Ég tel það ekki vera það fyrirkomulag sveitarfélaga sem er núna heldur einfaldlega hvað sveitarfélögin geta gert til að geta verið sjálfbær, haft sjálfsstjórn og sjálfbærniforsendur. Það eru einfaldlega vandamálin sem tengjast tekjustofnum sveitarfélaga. Við vitum öll að þeir eru takmarkaðir og skammtaðir á þann hátt að jöfnunarsjóður og ýmislegt svoleiðis er ákveðin fátæktargildra fyrir sveitarfélög.

Tekjustofnar sveitarfélaga eru aðallega útsvar af tekjuskatti og fasteignagjöld. Svo eru ýmis önnur gjöld sem eiga að standa undir kostnaði, gatnagerðargjöld o.s.frv., þannig að það hefur ekki áhrif á almenna þjónustu sveitarfélaganna. Þetta þýðir, með þessum tveimur tekjustofnum, að tekjur sveitarfélaga koma af því að hafa margt fólk, helst þá með hærri tekjur en ekki, og marga fermetra af húsum. Tekjur sveitarfélaganna koma ekki frá starfsemi fyrirtækja að öðru leyti, t.d. fyrirtækja sem eru með fáa starfsmenn og fáa fermetra, sem eru staðsett í heimahúsi t.d. Þær koma ekki frá útsvari af fjármagnstekjuskatti eða viðskiptum sem eiga sér stað í sveitarfélaginu eins og verslun, útsvari af virðisaukaskatti t.d. Það væri mjög eðlilegt að sveitarfélög væru með hlutdeild í sömu tekjustofnum og ríkið er með, og það er það mikilvæga við þetta atriði, til að atvinnuþróun innan sveitarfélaga geti tekið tillit til fleiri tegunda af atvinnustarfsemi en þeirrar sem byggist á fjölda fermetra og fjölda fólks, helst með háar tekjur. Það skiptir nefnilega máli að sveitarfélögin geti unnið þannig í nýsköpun sem byggist á öðrum tekjuforsendum en bara fermetrum og fjölda fólks þegar þau eru að byggja upp atvinnustefnu sína. Þegar þau koma með hugmyndir um það hvernig væri hægt að gera sveitarfélag sjálfbært þá er algjörlega nauðsynlegt að þau geti fengið tekjur af þess háttar atvinnustarfsemi, t.d. af netverslun eða ýmiss konar hugbúnaðargerð eða hvað það nú getur verið, sem er ekki bundið við þessa takmörkuðu tekjustofna, þessa tekjustofna sem takmarka hvað sveitarfélög geta gert til þess að gera sig sjálfbær og takmarka hugmyndamöguleika þeirra til að vinna að eigin sjálfsstjórn.

Það er stefna Pírata að sveitarfélög fái útsvar af fleiri tekjustofnum ríkisins, ekki að þeir verði hækkaðir heldur bara að hlutdeild þeirra breytist, því að við vitum það líka að sveitarfélögin hafa fengið aukin verkefni sem ekki hefur fylgt fjármagn. Þegar grunnskólar fluttust yfir til sveitarfélaganna komu kannski auknar kröfur til grunnskóla í kjölfarið sem fjármagn fylgdi ekki. Þannig eykst byrði sveitarfélaga af því að reka grunnskóla án þess að þau hafi bolmagn til að mæta því með auknum tekjum. Þetta er innlegg mitt og annar möguleiki sem er hægt að íhuga til að hjálpa til við sameiningu sveitarfélaga, til þess að vinna í alvörunni að hagkvæmni og jákvæðri uppbyggingu í fjölbreyttari sveitarfélögum, það er ekki að þvinga sameiningar heldur að gefa sveitarfélögum tækifæri til að blómstra á eigin forsendum.