151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[20:49]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða örstutt frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Eins og fram hefur komið er frumvarpið það fyrsta sem lagt er fram af hálfu ráðherra sveitarstjórnarmála til að ná fram markmiðum þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023. Þingsályktunin var sú fyrsta þar sem sett voru fram markmið um stefnu og aðgerðir í málefnum sveitarfélaga til að efla sveitarstjórnarstigið. Það voru því ákveðin tímamót þegar hún var lögð fram. Áherslan í þingsályktuninni var á að efla sveitarstjórnarstigið hér á landi, auka sjálfbærni sveitarfélaga og bæta enn frekar þjónustu við íbúa. Ef markmiðum ályktunarinnar verður náð munu sveitarfélög jafnframt verða betur í stakk búin til að mæta margvíslegum áskorunum sem þau og samfélagið allt stendur frammi fyrir á hverjum tíma, sem og að sinna brýnum hagsmunamálum íbúanna. Í ályktuninni er einnig lögð mikil áhersla á sjálfbærni sveitarfélaga og lýðræðislega starfsemi þeirra og að tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu.

Fyrsti liður aðgerðaáætlunar miðar sérstaklega að því að auka sjálfbærni sveitarfélaga og tryggja getu þeirra til að annast lögbundin verkefni, m.a. með sameiningum í stærri sveitarfélög. Sá liður er einn af ellefu í aðgerðaáætluninni og var að einhverju leyti umdeildur og frá því að þingsályktunin var samþykkt hefur frekari ágreiningur komið fram um málið. Í framsöguræðu sinni áðan lagði hæstv. ráðherra áherslu á mikilvægi þess að ná sátt um leiðir að markmiðum frumvarpsins um öflug, sjálfbær sveitarfélög og að þeim verði náð með ákvæðum um lágmarksíbúafjölda sveitarfélaga.

Ég kem hingað kannski fyrst og fremst til að leyfa mér að efast um að tækifæri gefist í störfum umhverfis- og samgöngunefndar til að vinna að þessari sátt til enda, enda kannski nauðsynlegt að það gerist á vettvangi sveitarfélaganna. Vissulega mun nefndin skoða málið og möguleika til breytinga í sátt og mér finnst mikilvægt og nauðsynlegt að halda því til haga að í frumvarpinu eru líka ákvæði sem þurfa að hljóta afgreiðslu á þessu þingi, svo sem heimildir til fjarfunda, breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og ekki síst skyldur sveitarfélaga til að afgreiða stefnu um þjónustustig í byggðum og byggðarlögum sveitarfélaga fjarri stærstu byggðarkjörnum, eða kannski miðju sveitarfélags þar sem byggðarkjarnar eru ekki endilega misstórir. Þetta er því áskorun sem umhverfis- og samgöngunefnd mun standa frammi fyrir í meðförum þessa máls og ég vildi fyrst og fremst koma hingað til að árétta það.