151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

sveitarstjórnarlög og tekjustofnar sveitarfélaga .

378. mál
[20:54]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, hún hefur verið alla vega eins og gengur. Í ljósi þess að fyrr á þessu kjörtímabili höfðu ýmsir nokkuð hástemmdar yfirlýsingar um mikilvægi þess að klára þetta mál og stuðning við það þá hef ég saknað þeirra í þessari umræðu. Á sama hátt verður að segja að maður hefði gjarnan, eins og oft þegar rætt er um sveitarstjórnarmál, viljað heyra meiri þekkingu á bak við umræðuefnið, sérstaklega þegar kemur að umræðu um jöfnunarsjóð og fjármögnun hans. Ég hef skilning á því, margir segja að það sé flókið, en mér finnst ekki gott að menn fari beinlínis með rangindi héðan úr stólnum um það í því skyni að reyna að kasta rýrð á þau verkefni sem hér eru í gangi. Hér töluðu í það minnsta tveir þingmenn Miðflokksins. Annar sagðist vera algjörlega á móti málinu, hinn var þó sáttur við þá fjárhagslegu hvata og þær breytingar á sveitarstjórnarlögum sem eru í þessu og ég vona að það sé sjónarmiðið frá þeim flokki, að hann sé ekki algerlega á móti málinu. Hér voru rædd sjónarmið frá aðilum sem ég hafði kannski ekki búist við að tækju svona neikvætt í það í þingsályktuninni sem rædd var í þinginu, að við þyrftum að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem komu fram hér, við þyrftum að hafa lengri tíma, hafa aðlögun til sveitarfélaganna sem vildu taka sér meiri tíma. Mér fannst eins og menn tækju ekki tillit til þess að það hefði verið gert.

Hér var rætt um þá vegferð og þær málamiðlanir sem hægt væri að gera. Ég hef gert það sem við stjórnmálamenn eigum að gera þegar við fjöllum um umdeild mál, ég hef hlustað. Þá hefði ég kannski viljað heyra þingið segjast vera til í þennan dans með stjórnvöldum og sveitarfélögunum, til í að taka upp umræðu um það hvort það sé skynsamlegt yfir höfuð að leggja til lágmarksíbúafjölda, hvort hann eigi að vera einhver annar en þessi, hvort aðlögunartími eigi að vera lengri og hvað eigi að gera þegar að því kemur að sveitarfélög hafi ekki þennan lágmarksíbúafjölda eða þetta skilgreinda hugtak um sjálfbærni, ef við myndum leggjast í þá vinnu að gera það.

Ég ætla hins vegar, eins og ég sagði í framsögunni, að lýsa yfir vilja mínum og ráðuneytisins til samstarfs við bæði þingið og sveitarfélögin í landinu til að finna þær leiðir sem þarf til að efla sveitarstjórnarstigið, ef ekki út frá nákvæmlega þessu frumvarpi og öllum þeim ákvæðum sem þar eru inni þá í það minnsta á grunni frumvarpsins, vegna þess að þar inni eru mjög margir þættir sem sannarlega styðja við þingsályktunina og markmiðið um að efla sveitarstjórnarstigið, hinir fjárhagslegu hvatar og breytingar á verklagi og heimildir til nýsköpunar í stjórnsýslu. Við sáum til að mynda í nýsameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi, Múlaþingi, svokallaðar heimastjórnir verða til, það er mjög spennandi nýsköpun sem verður gaman að fylgjast með og gæti leyst þann vanda sem nokkrir ræddu hér.

Ég heyrði menn lýsa áhyggjum af því valdið færi burt og fólk gæti ekki búið á sama stað. Ég verð að segja, frú forseti, að ég skil þau sjónarmið ekki. Við erum að tala um stjórnsýslueiningar. Samfélögin breytast ekki neitt. Fjölmargar sameiningar hafa orðið á liðnum árum og við skulum fara hringinn um landið. Nú gleymi ég örugglega fullt af sveitarfélögum en ég ætla bara að nefna þetta svo fólk átti sig á því að þeir sem voru hér með allt á hornum sér yfir því að þetta væri vont verða þá að koma og segja að allt það sem búið er að gera hafi farið í vaskinn og sé allt ómögulegt. Á Suðurnesjum er nú Reykjanesbær en voru það ekki einu sinni Keflavík og Njarðvík? Suðurnesjabær er nýtt sveitarfélag sem varð til árið 2018 sem var áður Sandgerði og Garður. Förum upp á Vesturlandið, þar er Borgarbyggð, ég veit ég er að hlaupa yfir einhver dæmi en tek bara nokkur, Dalabyggð, Vesturbyggð, Ísafjarðarbær, Húnaþing, Skagafjörður, Eyjafjarðarsveit, sveitarfélagið Norðurþing, Þingeyjarsveit, núna síðast Múlaþing, Fjarðabyggð, sem varð til og hefur stækkað í þremur sameiningum og er orðin gríðarlega stórt og öflugt sveitarfélag, Sveitarfélagið Hornafjörður, ég held að enginn vilji skipta þar. Sveitarfélagið Skaftárhreppur var búið til úr fimm sveitarfélögum, ég hef ekki heyrt þá umræðu að íbúar þar vilji fara í þær fimm einingar aftur og það geta allir búið í sveitarfélaginu Skaftárhreppi eins og þeir vilja en þeir tóku sig saman til þess að verða aðeins stærri stjórnsýslueining. Núna eru þeir aftur að velta fyrir sér hvort þeir þurfi ekki að vera stærri stjórnsýslueining. Mýrdalshreppur var stofnaður af þremur sveitarfélögum fyrir margt löngu, ég hef ekki heyrt að íbúar þar séu að fara að búta hann niður, frekar er verið að tala um að gera hann að stærri stjórnsýslueiningu af því að fyrri sameining gekk vel. Í Rangárþingi eystra hefur gengið gríðarlega vel að samtvinna stjórnsýslueininguna, menningarstarf og skólastarf, auðvitað hefur ekki allt gengið fullkomlega. Svo er Rangárþing ytra, Flóahreppur varð til úr þremur sveitarfélögum, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur. Ég gæti haldið áfram, ég gleymdi alveg slatta, Fjallabyggð og Hvalfjarðarsveit, og hoppaði alveg örugglega yfir eitthvað, þetta er stórhættulegur leikur og ég var ekki að reyna að telja upp öll sameinuð sveitarfélög, ég var bara að gefa þeim sem hlusta á þessa ræðu þá tilfinningu að þetta hafi gengið á í mjög langan tíma og hefur gerst með vilja íbúanna.

Ef sveitarfélagastigið á að geta keppt almennilega við ríkisvaldið og tekið við verkefnum í heild sinni þá er sú þróun ekki góð ef sveitarfélögin eru frá 50 íbúum, sem standa á bak við allt sem þau eiga að gera, upp í 130.000 og allt þar á milli. Það er betra að þau séu nægilega öflug til að geta tekið við verkefnum í heild sinni. Auðvitað þurfa þau áfram samstarf. Og 1.000 íbúa mark er ekki markmið, það er lágmarksíbúafjöldi. Þeir mega með öðrum orðum verða 1.200 eða 2.000 eða 10.000 eða hvað það nú er sem íbúar á tilteknu svæði telja að sé nægilega öflugt til að búa til meiri þjónustu, laða heim fólk frá þessum sveitarfélögum sem hefur menntað sig annars staðar, gera því kleift að snúa aftur og sinna vinnunni svo að ekki sé verið að kaupa þjónustu um langan veg frá stærstu sveitarfélögum landsins heldur byggja hana upp heima í héraði. Það er markmiðið. En eins og ég sagði í ræðu minni er íbúafjöldalágmarkið, hvaða tala sem það er, umdeilt. Ég er tilbúinn í samtal um hvaða leiðir sem er til þess að ljúka málinu með það að markmiði að styrkja sveitarstjórnarstigið því mér finnst það skipta mjög miklu máli að reyna að ná sem víðtækastri sátt og fá sem flesta með því ég vil halda því fram að ég sé að gera það sem við stjórnmálamenn eigum oft að gera, að hlusta.