151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

breyting á ýmsum lögum til einföldunar á regluverki.

444. mál
[21:03]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum til einföldunar á regluverki, á þeim málefnasviðum sem heyra undir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Frumvarpið er þáttur í aðgerðaáætlun ráðuneytisins þar sem lögð hefur verið áhersla á að finna leiðir til að einfalda starfsumhverfi atvinnulífsins eins og unnt er og taka til endurskoðunar og eftir atvikum fella niður óþarfa leyfisveitingar, einfalda flækjustig og fækka þeim snertiflötum atvinnulífsins við stjórnvöld sem ekki eru algerlega nauðsynlegir.

Með þeim breytingum sem lagðar eru til í því frumvarpi sem ég mæli nú fyrir og sem Alþingi samþykkti að gera með frumvarpi mínu sem varð að lögum nr. 19/2020 á síðasta löggjafarþingi er dregið úr aðgangshindrunum að atvinnustarfsemi sem hafa um lengri tíma ekki verið nauðsynlegar á grundvelli almannahagsmuna. Við það eflist sveigjanleiki atvinnulífsins, hagkvæmni og hagræði eykst og til lengri tíma verður atvinnulífið sterkara fyrir vikið.

Með þessu frumvarpi eru lagðar til margvíslegar breytingar sem ég mun nú fara stuttlega yfir. Í fyrsta lagi er lagt til að ráðuneytið hætti að hlutast til um að haldin verði próf til viðurkenningar bókara og þeirri viðurkenningu verði því hætt. Viðurkenning ráðherra á því að einstaklingur hafi staðist tiltekið próf veitir honum ekki sérstök réttindi til að stunda ákveðna atvinnu umfram aðra. Frá því að viðurkenning ráðherra var tekin upp rétt fyrir aldamót hafa orðið töluverðar breytingar og námið orðið viðurkennt sem mikilvægur hluti reikningsskila. Námið hefur því fest sig í sessi með þeim hætti að ekki er lengur þörf á viðurkenningu ráðherra.

Í öðru lagi er lagt til að tryggingardeild útflutningslána við Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins verði lögð niður. Starfsemi tryggingardeildarinnar hefur legið niðri um langt árabil og engar útflutningsábyrgðir veittar. Þrátt fyrir niðurlagninguna verður áfram mögulegt að veita ríkistryggðar útflutningsábyrgðir á grundvelli laga um ríkisábyrgðir, reynist þörf á því.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á lögum um sölu fasteigna og skipa, annars vegar til áréttingar á skyldum fasteignasala til að gæta að reglum laga um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og hins vegar er lögð til einföldun á málsmeðferð eftirlitsnefndar fasteignasala við lokun starfsstöðvar aðila sem stundar fasteignasölu án löggildingar. Ég vek athygli á því að þingið hefur nú einnig til meðferðar annað frumvarp sem ég hef lagt fram þar sem lögð er til einföldun á verkefnum eftirlitsnefndar fasteignasala þannig að nefndin hætti að veita óbindandi álit að ósk viðskiptavina á því hvort fasteignasali hafi áskilið sér rétt á þóknun eða valdið tjóni með bótaskyldri háttsemi. Til greina kom að fella niður það skilyrði að löggiltur fasteignasali þurfi að eiga meiri hluta í félagi sem stundar fasteignasölu, en eftir yfirferð umsagna sem bárust ráðuneytinu í samráðsgátt stjórnvalda ákvað ég að falla frá þeirri breytingu þar sem ekki þótti sýnt að einhvers konar vísir að markaðsbresti væri á markaði fyrir þjónustu fasteignasala. Um nánari umfjöllun um þetta atriði vísast til samráðskaflans í greinargerð frumvarpsins.

Í fjórða lagi er lagt til að lög um verslunaratvinnu falli alfarið brott og að reglur laganna um frjáls uppboð færist yfir í lög um lausafjárkaup, að álagning fylgiréttargjalds vegna sölu á listmunauppboðum fari alfarið eftir ákvæðum höfundalaga og að felld verði brott sértæk upplýsingaskylda sölumanna notaðra bifreiða. Þessar breytingar hafa allar í för með sér minni reglubyrði og einfaldara fyrirkomulag fyrir bæði atvinnulíf og neytendur.

Loks er lagt til að lög um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga og hagfræðinga falli brott. Menntun viðskiptafræðinga og hagfræðinga og starfsheiti þeirra hafa fest sig vel í sessi frá því lögin voru sett en á þeim tíma gat verið erfitt að bera saman nám í mismunandi háskólum erlendis og því þótti rétt á sínum tíma að sett yrðu lög sem fælu í sér mat nefndar á námi þess sem vildi kalla sig viðskiptafræðing eða hagfræðing. Lögin fela í sér lögverndun starfsheita, sem er í eðli sínu ein tegund samkeppnishindrana, þótt það feli ekki í sér jafn mikla röskun og á við um lögverndun starfa, sem felur í sér einkarétt til að sinna þeim störfum. Með miklum breytingum á námi og störfum viðskiptafræðinga og hagfræðinga og þeirri þróun sem orðið hefur í atvinnulífinu frá því að lögin voru sett er ekki lengur talið nauðsynlegt að viðhalda þeirri lögverndun sem þau fela í sér. Með breytingunni er ekki með neinum hætti verið að draga úr atvinnumöguleikum viðskiptafræðinga og hagfræðinga og ekki með neinum hætti verið að gjaldfella nám þeirra. Þvert á móti felur breytingin í sér að það er námið og hæfni einstaklinganna sem þeir hafa þróað með sér í gegnum námið sem er grundvöllur þeirra fjölbreyttu starfsmöguleika sem nám þeirra veitir þeim.

Á þessu kjörtímabili hef ég beitt mér fyrir margvíslegum breytingum sem hafa þann tilgang að einfalda starfsumhverfi atvinnulífsins og bæta skilyrði fyrir því að virk samkeppni fái þrifist með góðum hætti í sem flestum atvinnugreinum. Í ráðuneytinu hefur verið unnið eftir sérstakri aðgerðaáætlun þar sem leitast hefur verið við að yfirfara það regluverk sem varðar atvinnustarfsemi og heyrir undir ráðuneytið með það í huga að leita leiða til einföldunar og aukinnar skilvirkni fyrir atvinnulífið. Þannig hefur Alþingi samþykkt frumvörp mín um breytingar á ýmsum lögum til einföldunar ýmissa leyfisveitinga þar sem voru m.a. felld niður skilyrði um iðnaðarleyfi og leyfi til sölu notaðra ökutækja, auk annarra breytinga, og um breytingar á samkeppnislögum til einföldunar og aukinnar skilvirkni fyrir atvinnulífið. Þá voru felld úr gildi fjölmörg lög sem ekki höfðu lengur raunhæfa þýðingu en var þrátt fyrir það að finna í gildandi lagaumhverfi. Alþingi hefur nú til meðferðar breytingar á lögum um Neytendastofu þar sem verkefni stofnunarinnar eru einfölduð og færð til annarra stjórnvalda þar sem meiri faglega samlegð er að finna. Felld hafa verið brott búsetuskilyrði EES-borgara í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, en búsetuskilyrðið var ekki í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands í gegnum EES-samninginn. Unnið hefur verið að aukinni rafrænni málsmeðferð hjá fyrirtækjaskrá. Ég hef beitt mér fyrir því að erlendum sérfræðingum verði gert auðveldara að stunda atvinnu hér á landi og unnið hefur verið að því að einfalda leyfisveitingar með rafrænni gátt og svona mætti lengi halda áfram.

Eitt stærsta verkefnið sem unnið hefur verið á kjörtímabilinu var unnið í samvinnu við OECD sem gerði samkeppnismat á regluverki í ferðaþjónustu og byggingarstarfsemi. OECD skilaði skýrslu sinni í nóvember síðastliðnum þar sem koma fram yfir 400 tillögur til breytinga á gildandi laga- og regluumhverfi fyrir þessar tvær atvinnugreinar. Eru tillögurnar til þess fallnar að draga úr aðgangshindrunum og bæta skilyrði fyrir virka samkeppni, m.a. eru þar lagðar til breytingar til einföldunar á sviði ferðamála og lögverndaðra starfsgreina og vinna stendur yfir í ráðuneytinu í samráði við önnur ráðuneyti og haghafa um útfærslur á þeim tillögum, svo sá ábati sem getur orðið af aukinni samkeppni muni raungerast, og hann er mikill.

Virðulegi forseti. Ég hef hér farið yfir efni frumvarpsins og stuttlega yfir hluta þess sem ég hef sett á dagskrá á yfirstandandi kjörtímabili en af mörgu fleiru er að taka. Ég hef til að mynda ekkert fjallað um vinnu við að bæta rekstrarskilyrði ferðaþjónustunnar og um aukna upplýsingavinnu til að efla stefnumótun í málaflokknum, svo fátt eitt sé nefnt.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpið gangi til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.