151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll.

115. mál
[21:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Ég vil byrja að þakka framsögumanni, hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni, fyrir þessa ágætu tillögu sem hefur verið flutt allnokkrum sinnum og er orðið löngu tímabært að verði samþykkt. Þetta er mikilvægt mál, eins og hv. þingmaður kom inn á, og skiptir íbúa á Hornafirði sérstaklega miklu máli og einnig landsmenn alla vegna þess að flugsamgöngur á landsbyggðinni eru mikilvægur samgöngumáti. Í því sambandi er rétt að hafa í huga að flugsamgöngur myndu að sjálfsögðu létta á álagi á þjóðvegum landsins ef þær væru notaðar í meira mæli. Það er brýnt að létta á því álagi vegna þess að við vitum að ástandið á þjóðvegum landsins er því miður ekki alls staðar nógu gott og þörf á uppbyggingu víða og hún mun taka langan tíma og er kostnaðarsöm. Á sama tíma er hægt að fara í uppbyggingu á flugvöllum eins og á Hornafirði með tiltölulega litlum kostnaði í samanburði við uppbyggingu á þjóðvegakerfinu.

Annað sem er athyglisvert við þetta mál, sem rétt er að koma á framfæri, er að nú hefur rutt sér til rúms ný tækni, svokölluð GPS-aðflugstækni, sem er mun einfaldari og ódýrari en sú tækni sem notuð hefur verið. Hana væri að sjálfsögðu hægt að innleiða á Hornafirði. Dæmi um þetta er að flugmaður sem kemur í aðflug þar sem þessi nýja tækni er fyrir hendi getur kveikt á brautarljósum á flugbrautinni o.s.frv. úr flugvélinni sem hann flýgur. Það skiptir einnig máli í þessu samhengi og gefur auknar vonir um að Hornafjarðarflugvöllur verði samþykktur fyrir millilandaflug. Tæknin hefur því breyst mikið og vinnur með þessu máli.

Við þurfum einnig að hafa í huga skilgreiningar þegar kemur að flugvelli eins og á Hornafirði. Þar er slitlagið á flugbrautinni úr svokallaðri klæðningu sem við þekkjum úr vegakerfinu hér á landi. Þessi skilgreining hefur valdið misskilningi erlendis þar sem sumir halda að hér sé um malarflugvöll að ræða. Þetta þarf að skoða vegna þess að klæðningin hefur gefið góða raun. Það þarf því að leiðrétta þessa skilgreiningu.

Ég fagna þessari tillögu og er einn af flutningsmönnum hennar og vona að hún fái brautargengi vegna þess að þetta er mikilvægt mál fyrir þetta svæði. Þetta er auk þess öryggismál vegna þess að þetta skiptir sjúkraflugið máli og almennar flugsamgöngur á svæðinu. Það er líka óhætt að nefna það að ekki væri úr vegi að kanna einnig að bæta flugvallaraðstöðu, t.d. á Kirkjubæjarklaustri og Vík í Mýrdal. Og svo ég víki aðeins að Vík í Mýrdal þá er þar flugvöllur sem getur gagnast mjög vel, t.d. við náttúruvá. Við vitum að samfélagið í Vík í Mýrdal býr við að Katla gæti gosið og fólk þurft að yfirgefa heimabyggð sína mjög skyndilega og svo gæti farið að leiðir lokuðust. Þá væri flugvöllurinn mikið öryggisatriði. Það er skynsamleg fjárfesting að mínu mati og ekki svo kostnaðarsöm. Mér skilst að það kosti um 160 millj. kr. að setja bundið slitlag á flugvöllinn í Vík í Mýrdal og reyndar á Kirkjubæjarklaustri líka. Þetta eru ekki háar upphæðir, frú forseti, í samanburði við það sem þarf að eiga sér stað í samgöngukerfinu á öllu landinu og í uppbyggingu vegakerfisins. Þarna er fljótleg leið til að bæta samgöngur inn á svæðin, bæði á Kirkjubæjarklaustri og Vík í Mýrdal, svo að dæmi sé tekið.

Ef þessi tillaga verður að veruleika og fær brautargengi sem er, eins og ég segi, orðið löngu tímabært og fjárveitingar koma til verður það upphafið að því að við förum að nýta flugsamgöngur meira á þessu svæði í Suðurkjördæmi og einnig á landsbyggðinni allri. Ég vona sannarlega að þessi tillaga fái brautargengi. Það er mikið hagsmunamál fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð og ferðaþjónustuna á Suðurlandi að Hornafjarðarflugvöllur verði opnaður fyrir millilandaflugi og það er einnig mikið öryggismál, eins og ég nefndi áðan, að hann verði opnaður sem slíkur. Hér hefur verið bent á skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa þar sem segir að það að opna flugvöllinn fyrir millilandaflugi myndi auka þjónustu með aukinni umferð. Í skýrslunni, sem gefin var út 29. október sl. vegna flugslyss í Múlakoti í júní 2019, er bent á að ekki reyndist unnt að fá eldsneyti á Hornafirði eins og flugmaðurinn hafði ætlað sér og sú flugvél varð bensínlaus sem varð til þess að hún brotlenti og því miður létust þrír í því hörmulega slysi, báðir flugmennirnir og einn farþegi.

Öryggismál eru því mjög mikilvægur þáttur í því að byggja upp Hornafjarðarflugvöll, auka þjónustuna og opna hann fyrir millilandaflugi. Það skiptir ferðaþjónustuna miklu og fyrir svæðið og auk þess myndast ný atvinnutækifæri. Það er því fjölmargt sem mælir með því að flugvöllurinn verði opnaður fyrir millilandaflugi.

Frú forseti. Að lokum þakka ég fyrir þessa tillögu og vona að hún fái brautargengi.