151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

millilandaflug um Hornafjarðarflugvöll.

115. mál
[21:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Nú veit ég að hann hefur ágæta þekkingu í þessum málaflokki vegna þess að hann er jú lærður flugmaður, er það ekki rétt? Einkaflugmannspróf hefur hv. ágætur þingmaður og ég óska honum til hamingju með það. Hann þekkir þessa tækni mun betur en ég. En varðandi aðflugstæknina og að kveikja á brautarljósum o.s.frv., þá var þetta nefnt í því samhengi að þessi tækni sparar kostnað. Oft er horft í kostnaðinn þegar menn velta fyrir sér að víkka út starfsemi flugvalla og þá kemur náttúrlega til kasta tækninnar, hún getur dregið úr kostnaði í þessum efnum. Það er mjög mikilvægt að það sé haft í huga í þessu öllu saman. En mér finnst í þessari umræðu, af því að ég nefndi flugvellina bæði í Vík og á Kirkjubæjarklaustri, að við höfum allt of lítið hugsað þetta út frá því sjónarmiði að hægt sé að minnka álagið á þjóðvegum landsins. Þegar ferðamannastraumurinn var sem mestur var orðið heilmikið álag á vegum, þjóðvegi 1 sérstaklega, og þar sem eru einbreiðar brýr o.s.frv. Á þann hátt er þetta líka öryggisatriði sem við eigum að horfa í vegna þess að þetta skiptir okkur öll máli. En svo eru það náttúrlega öll þau tækifæri sem fylgja því að hafa þessa flugvelli aðgengilega og í góðu standi. Það hefur einmitt verið lagt upp með mjög gott útsýnisflug frá Hornafjarðarflugvelli og gefið góða raun og sem ferðamenn hafa sótt í. Það eru mörg tækifæri sem fylgja þessu og ég ætla bara að vona það, frú forseti, að nú taki menn sig á og samþykki þessa tillögu (Forseti hringir.) sem búið er að margflytja hér og löngu tímabært að verði að veruleika.