151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

heimild sveitarfélaga til að innheimta umhverfisgjöld.

121. mál
[21:38]
Horfa

Flm. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um að heimila sveitarfélögum að innheimta umhverfisgjöld. Tillagan er flutt af mér og hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur og hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra í samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra að meta hvort og hvernig unnt sé að veita sveitarfélögum heimild til að innheimta umhverfisgjöld. Ráðherra skili Alþingi skýrslu um málið á vorþingi 2021.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi tillaga er flutt eða sambærilegar tillögur en ég held að óhætt sé að segja, frú forseti, að tillagan fékk nokkuð óvænt töluverða athygli þegar hún var lögð fram, sumpart af áhuga en sumpart kannski vegna misskilnings. Menn töldu að þarna færi einhvers konar aðför að einkabílnum og þess háttar. En svo er ekki því eins og ég hef áður sagt á opinberum vettvangi er takmörkun á notkun einkabíla sennilega besti vinur þeirra sem vilja keyra um á einkabílum vegna þess að þá fá þeir miklu betra pláss og miklu meira næði til að aka um vegina.

Víða um hinn vestræna heim hefur á undanförnum árum þeirri skoðun aukist fylgi að umhverfisvitund byrji í nærsamfélaginu. Slík samfélagsvitund sé nauðsynleg þar svo að hún megi verða að því afli sem fær samfélög til að breyta um stefnu í hinum mikilvæga málaflokki sem umhverfismál eru.

Margar leiðir hafa verið farnar erlendis til að auka vitund fólks um umhverfisþætti. Þar má nefna flokkun sorps, sem er víða byrjað að gera á Íslandi eins og þingmenn þekkja, takmarkanir á bílaumferð í miðborgum, eins og er m.a. í nokkrum höfuðborgum og stórborgum Norðurlandanna, og bílastæðagjöld eru náttúrlega mjög víða innheimt. Þau eru víða í stórborgum erlendis og jafnvel ekkert svo stórum borgum mun hærri en hér á Íslandi. Sums staðar eru teknir mengunarskattar sem má svo sem segja að við séum að einhverju leyti byrjuð að gera á Íslandi. Síðan eru víða erlendis heimildir til sveitarfélaga til að innheimta gjöld af bílaeign og þannig mætti lengi telja.

Á Íslandi er þessi hugsun frekar skammt á veg komin, enn sem komið er, þrátt fyrir miklar framfarir, t.d. í flokkun sorps eins og ég nefndi, hún er í mörgum sveitarfélögum. En eins og kom reyndar fram í umræðu um daginn eru óvíða nákvæmlega sömu reglur og maður getur rétt ímyndað sér hvað það getur verið snúið. En látum það liggja á milli hluta. Gjaldtaka sveitarfélaga vegna t.d. bílaeignar þekkist ekki eða varla. Það eru bílastæðagjöld í Reykjavík og það er smávegis heimild í lögum til að innheimta stöðugjöld, sem kom inn í umferðarlög 2017, en annars eru mjög litlar heimildir. Auðvitað innheimta sveitarfélögin síðan gatnagerðargjöld eins og þau hafa gert mjög lengi.

Sveitarfélögum hefur í raun ekki tekist, ef maður getur orðað það sem svo, að stemma stigu við einkabílanotkun. Ísland er meðal þeirra landa þar sem einkabílaeign er hvað mest á hvern íbúa. Það má til gamans geta þess að á Íslandi eru ríflega 800 bílar eða ökutæki á hverja 1.000 íbúa. Við erum í fjórða sæti í heiminum hvað þetta varðar á eftir smáríkinu Mónakó, og man ég ekki í svipinn hvert hitt ríkið var, og síðan eru Nýja-Sjáland og Bandaríkin ofar en við. Það eru sem sagt fleiri ökutæki á Íslandi en Íslendingar sem hafa bílpróf.

Almenningssamgöngur hafa að vissu leyti liðið fyrir þessa stefnu, þ.e. áhersluna á einkabílinn, sem og annar umhverfisvænn ferðamáti. Fyrir vikið eru, eins og ég nefndi, á mörgum íslenskum heimilum tveir bílar og sums staðar jafnvel fleiri. Þetta krefst gríðarlega mikils kostnaðar hjá sveitarfélögunum því eins og menn þekkja, sem hafa eitthvað kynnt sér skipulagsmál sveitarfélaga, er gert ráð fyrir því í skipulagi sveitarfélaga að það séu að meðaltali þrjú bílastæði fyrir hvern bíl sem er skráður í sveitarfélaginu. Það er viðmiðunin hjá flestum stærri sveitarfélögum. Þá sjá menn hvað þessu fylgir mikill kostnaður. Því fylgir líka viðhald á götum og gatnagerð, landnotkun eins og ég nefndi og svo önnur mannvirkjagerð sem tengist bílanotkun. Loft- og hávaðamengun af völdum bíla er líka vel þekkt og þar má til að mynda nefna svifryksmengun, sem ég hef einhvern tíma áður rætt í ræðustól. Nýleg skýrsla á vegum Vegagerðarinnar sýnir að hún er að stærstum hluta til vegna nagladekkja sem er einn af þessum þáttum, alla vega í stærri sveitarfélögum, sem væri hægt að hafa raunveruleg áhrif á ef sveitarfélögin hefðu þessi tæki í höndunum.

Tilgangur tillögunnar er að skoðað verði hvort og hvernig hægt sé að veita sveitarfélögunum heimild til að innheimta umhverfisgjöld. Það væri hægt að líta til fleiri þátta en bílaeignar, t.d. notkunar á efnum sem geta valdið umhverfismengun innan sveitarfélaganna, þau gætu innheimt einhver gjöld fyrir það, eða vegna starfsemi sem skaðaði umhverfið með einhverjum hætti, það væri hægt að leggja sérstök gjöld á hana.

Sveitarfélögin bera ábyrgð á mjög margvíslegri þjónustu við borgarana sem oft tengist umhverfisþáttum og hönnun nærumhverfis. Landnotkun vegna bílanotkunar er eitt af því sem við þyrftum að horfa þarna til en eins og ég nefndi áðan var algjörlega ómögulegt fyrir sveitarfélögin að bregðast með nokkru móti við þessu fyrr en umferðarlögum var breytt, en nú er þar takmörkuð heimild fyrir þau. Hún er samt töluvert takmörkuð.

Stjórnvöld hafa sett sér markmið í baráttunni við loftslagsbreytingar og mörg sveitarfélög hafa sett sér stefnu um kolefnishlutleysi. Á hverjum tíma ber ráðherra umhverfis- og auðlindamála ábyrgð á framfylgd þeirrar stefnu. Því er mikilvægt að samráð milli samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra sé virkt í þessum efnum. Þannig er frekar hægt að ná þeim markmiðum sem menn ætla sér.

Með heimild til álagningar umhverfisgjalds væru möguleikar sveitarfélaga til að bæta umhverfið og styrkja gjaldstofna sína auknir. Flutningsmenn tillögunnar telja mikilvægt að ráðherra láti kanna þessa möguleika í núverandi lagaumhverfi.

Ég nefndi aðeins hlutverk sveitarfélaganna og bara fyrr í kvöld vorum við einmitt að ræða eflingu sveitarstjórnarstigsins og hvernig við gætum gert það í gegnum það að sameina sveitarfélög og stækka þau. Það að veita sveitarfélögunum heimildir til þess að stjórna sínum málum með, við skulum segja, skýrari hætti og hafa meiri áhrif á umhverfisþætti með gjaldtöku vegna mengandi þátta, getur skipt verulegu máli. Ég nefndi líka almenningssamgöngurnar og við skulum horfa til þess að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru núna að leggja út í alveg gríðarlega miklar framkvæmdir og mikinn kostnað í samvinnu við ríkið til að byggja mjög stóra samgöngubót, þ.e. borgarlínuna. Það er í takt við þessa hugsun að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu verði á einhverjum tíma að fara að hugleiða það hvernig við ætlum að tryggja að við getum öll búið hérna og andað að okkur loftinu og hvernig við getum raunverulega komist á milli staða. Það gerist ekki með því að fjölga mislægum gatnamótum og það gerist ekki heldur með því að fjölga bílum. Það gerist ekki með því að setja fleiri umferðarljós eða breyta umferðarhraða. Það gerist ekki öðruvísi en þannig að við förum að hugsa um það hvernig við ætlum að láta þetta borgarsamfélag fúnkera eins og borgarsamfélag.

Ég er kannski kominn aðeins út fyrir efnið í þessu, frú forseti, en ég tel mikilvægt fyrir sveitarfélögin að skoðað verði hvort það sé vert og mögulegt að veita þeim þessar heimildir og þá með hvaða hætti. Ég treysti því að til slíkrar vinnu væri hægt að vanda í samvinnu þessara tveggja ráðuneyta.

Ég legg til að málinu verði vísað til umhverfis- og samgöngunefndar ef grannt er skoðað nema það fari til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem hér er um að ræða möguleika á innheimtu gjalda. En ég leyfi frú forseta að skera úr um það og vona að málið fái góða umræðu og framgang í þinginu.