151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

heimild sveitarfélaga til að innheimta umhverfisgjöld.

121. mál
[21:49]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú kannski ekki að þakka hv. þingmanni fyrir að koma með skattatillögu, en þakka honum fyrir að koma með þetta umræðuefni hér og gaman að fá að takast á um það við hann. Mér þætti vænt um ef hann myndi aðeins útskýra hvers lags gjöldum er eiginlega verið að bæta hér ofan á og hvaða markmiðum þau eiga raunverulega að ná. Mér finnst þetta vera svolítið opið, umhverfisgjöld. Svo er talað um bílastæðakostnað, gatnagerðarkostnað, umhverfiskostnað, en samt er hver íbúi í sveitarfélagi búinn að borga gatnagerðargjöld og þar með gerð á götum og bílastæðum. Svo vantar nú ekki, alla vega ekki á höfuðborgarsvæðinu, innviðagjöldin. Og ekki vantar kolefnisgjaldið, virðisaukaskattinn og vörugjöldin og allt á bílana eftir því sem þeir menga. Svo eru heimildir til að taka bílastæðagjöld til að gera við þau. Mig langar svolítið að vita hverju þetta bætir raunverulega við. Er verið að tala um heimild fyrir hvert og eitt sveitarfélag að innheimta af þeim bílum sem eru skráðir í því sveitarfélagi? Í höfuðborginni er það svo að þeir sem vinna þar hafa margir hverjir bara flutt í Kragasveitarfélögin eða jafnvel í nágrannasveitarfélög eins og mitt sveitarfélag, Grindavík, mjög margir á höfuðborgarsvæðinu hafa flutt þangað. Munu þeir sem þurfa að ferðast með bílum, af því það eru ekki greiðar almenningssamgöngur þar á milli, ekki greiða gjaldið, bara íbúarnir í hverju sveitarfélagi fyrir sig? Mig langar að fá aðeins skýrari mynd af því um hvað við erum að tala hérna og hvort ekki sé hægt að ná þessu frekar með hvötum fyrir fólk til að nota aðra samgöngumáta en jarðefniseldsneytisbíl.