151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

heimild sveitarfélaga til að innheimta umhverfisgjöld.

121. mál
[21:58]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. flutningsmanni þessarar tillögu, Ólafi Þór Gunnarssyni, fyrir að bera hana hér í hús. Það er eins og að hitta gamlan vin að fjalla um hana því að hún er ekki borin upp í fyrsta sinn. Þetta er í sjötta sinn sem hún er borin upp og það er nú ein spurningin: Af hverju telur þingmaðurinn að hún fái ekki betra brautargengi en dæmin sanna, eins gott mál og þetta er að mörgu leyti? Hér eru brýn áform sem kallast sterklega á við umræðuna í samfélaginu í dag.

Hér segir réttilega í greinargerðinni að aukin vitund sé um þessi málefni í hinum vestræna heimi og aukin umhverfismeðvitund byrji í nærsamfélaginu, sem er svo laukrétt. En hver er skoðun flutningsmanns á greiðsluvilja íbúa sveitarfélaganna þegar kemur að svona íþyngjandi gjöldum, eða umhverfisgjöldum? Telur hann að skilningur sé fyrir hendi á þessu? Hvernig metur hann það? Þetta eru náttúrlega ekki gjöld sem snúa eingöngu að umferð eða bifreiðum, þetta er margvíslegt annað. En að þessu leyti tek ég undir með hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni, við ættum að velja jákvæða hvata, uppbyggilega hvata, eitthvað sem fær fólk til þátttöku í svona mikilvægu verkefni.