151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

heimild sveitarfélaga til að innheimta umhverfisgjöld.

121. mál
[22:03]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæt svör og vangaveltur. Hér kemur fram í tillögunni að flokkun sorps sé kannski ekki mjög langt á veg komin á Íslandi en þó sé farið að flokka sorp og það sé raunar til fyrirmyndar í stöku sveitarfélagi. En eru sorphirðugjöld þá hugsuð sem hluti af því sem nefnt er hér umhverfisgjöld og nálgumst við það verkefni þá með sérstökum hætti?

Síðan eru það umhverfisgjöld sem tengjast umferð. Með þessu yrðu umhverfisgjöldin breytileg frá einu sveitarfélagi til annars, þéttbýlum svæðum og dreifbýlum svæðum. Hvernig sér þingmaðurinn það fyrir sér? Nefnd voru bílastæðagjöld eða svokallaðir stöðureitir. Sér hann fyrir sér að við förum að greiða sérstaklega fyrir að leggja fyrir utan húsið heima hjá okkur, svo dæmi sé tekið?

Þá langaði mig að heyra hann fara aðeins dýpra í það hvernig hann sjái fyrir sér í reynd innheimtu á umhverfisgjöldum sveitarfélaganna, á hvaða formi það verði, við hvað verði miðað ef við tökum umferðina inn í það en einnig aðra þætti samhliða.