151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

ráðstafanir til að lækka eldsneytiskostnað í millilandaflugi.

123. mál
[22:16]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Í sjálfu sér er ekki miklu við þessa tillögu að bæta, hún er mjög góð og þörf. En mig langaði aðeins að fylgja henni eftir vegna þess að mér varð hugsað til þess, ég held það hafi verið árið 2015 eða 2016, þegar gera átti eins konar tilraun til að fljúga beint flug að utan á Egilsstaði. Ekkert varð af því, m.a. vegna þess að bensínverð var hærra fyrir austan en í Keflavík og reyndar kom annað til að auki, það var líka talað um aðstæður til að taka á móti ferðafólki. En stór hluti í þessu var að eldsneytiskostnaður hafði ekki verið jafnaður þannig að manni finnst að þessi tillaga ætti algjörlega að renna í gegn. Hún er flutt hér í þriðja skipti en hefur ekki náð framgangi. Við gerum ráð fyrir því í framtíðinni að ferðamennskan nái aftur flugi og ferðamenn fari að flykkjast til landsins og hjól atvinnulífsins nái fyrri snúning. Þá hlýtur svona lagað að vera sjálfsagður hlutur. Við erum alltaf að tala um að dreifa eigi ferðamönnum sem mest um landið og ýmislegt hefur verið gert í því, t.d. hvað varðar móttöku ferðamanna og á annan hátt, hótel og útsýnisferðir og alls lags þjónusta sem boðið hefur verið upp á. En þetta hefur ekki verið tekið í gegn og því vildi ég koma hingað upp til að fylgja málum eftir og benda á að þetta er algjörlega sjálfsagt mál og ætti að vinnast mjög hratt og örugglega.