151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

125. mál
[22:57]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu um að byggja hátæknisorpbrennslustöð. Ég er mjög fylgjandi því og ég held að það sé mjög mikilvægt að hér á landi verði byggð sorpbrennslustöð. Því fagna ég að fá tækifæri til að ræða það. Margt áhugavert hefur komið hér fram, bæði í greinargerð með þessu máli og í ræðum þingmanna. Mér þykir þó aðeins standa eftir, og ég verð að viðurkenna að ég hef kannski ekki náð að lesa mig í gegnum þetta, hver eigi að fjármagna þetta. Þar kemur kannski að því að það hefur verið á ábyrgð sveitarfélaganna að reka endurvinnslustöðvar og finna leiðir í úrgangsmálum. Það er reyndar ekki fyrirkomulag sem ég er endilega sammála. Ég hef sagt það, af því að við ræddum málefni sveitarfélaganna fyrr í dag, að sveitarfélögin eigi að vera með nærþjónustu. Þau eru ofboðslega góð í því að veita nærþjónustu og ég held að sveitarfélögin séu miklu betri en ríkið í að veita þá þjónustu. Það að vera með þjónustu í kringum flokkun sorps, sem er ofboðslega mikilvæg, getur vel verið á herðum sveitarfélaganna og flest sveitarfélögin bjóða reyndar þá þjónustu út, þ.e. sorphirðuna, en stýra fjölda tunna og hvernig því er háttað.

En að losa sig við það sorp sem ekki fer til endurvinnslu þarf ekki að vera á hendi sveitarfélaganna og er auðvitað langt frá því að vera nærþjónusta, enda sést það best á því að urðunarstaðurinn í Álfsnesi sinnir auðvitað miklu stærra svæði en bara höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna vil ég leggja það til að hv. umhverfis- og samgöngunefnd, sem mun fá þetta mál til umfjöllunar, ræði aðeins líka hvort og hvernig rétt sé að halda utan um þessi mál til lengri tíma litið. Og ég segi þetta hafandi verið lengi í sveitarstjórn og tekist á um einmitt rekstur Sorpu í Álfsnesi þar sem við rekum enn þann dag í dag, því miður, urðunarstað. Það er auðvitað löngu tímabært að urðun sé hætt þar. En vandamálið er að enginn virðist vera tilbúinn til að taka við urðunarstað og þó að við opnum hér brennslustöð, sem er mikilvægt, þá mun alltaf þurfa að urða einhvern hluta úrgangsins. Það gæti jafnvel verið bara askan úr brennslustöð eða hratið sem kemur úr gas- og jarðgerðarstöðinni sem nú er búið að byggja í Álfsnesi.

Mér finnst vegferð okkar á síðustu áratugum við það að finna framtíðarfyrirkomulag, bara fyrir höfuðborgarsvæðið, þar sem eru þó stærstu og öflugustu sveitarfélögin á landinu, hvernig því sé best háttað, annars vegar að flokka sorp og hins vegar að hirða það og endurvinna, gas- og jarðgerðarstöðin og það allt, sýna að þetta er auðvitað verkefni sem væri betur komið hjá ríkinu með heildaryfirsýn yfir landið allt. Hér er talað um sorpbrennslustöð fyrir landið allt. Það er auðvitað miklu eðlilegra að horft sé á landið allt í þessari mynd. Gas- og jarðgerðarstöðin, sem hefur nú verið opnuð í Álfsnesi og er örugglega eitt af okkar allra stærstu umhverfisskrefum á síðustu misserum og skiptir auðvitað mjög miklu máli, átti sér líka mjög erfiða fæðingu. Og ef stærstu og öflugustu sveitarfélögin eiga erfitt með að fjármagna slíka uppbyggingu og koma að henni, hvernig getum við þá ætlast til þess að einhver önnur sveitarfélög komi svo með sorpbrennslustöð og svo eitthvert annað sveitarfélag jafnvel með urðunarstaðinn?

Það er alveg ljóst að hér á landi þarf að vera a.m.k. þessi eina gas- og jarðgerðarstöð sem búið er að opna í Álfsnesi, a.m.k. ein öflug sorpbrennsla og líka urðunarstaður. Ég get tekið undir með þingmönnum sem hafa talað á undan mér að auðvitað hljómar það fáránlega, svo ég noti það orð, að við séum að flytja út sorp til brennslu eða annars konar vinnslu og við vitum að urðun er ekki framtíðin. En ég ætla líka að nota tækifærið og nefna að ég held að við þurfum aðeins að fara að huga að því hvort við séum með ranga hvata í kerfinu okkar því að þó að við flokkum hér plast og pappír, og það er í rauninni bara mikilvæg auðlind, þá erum við meira og minna að flytja það allt saman út til endurvinnslu. Ég velti fyrir mér hvort hér sé ekki áhugi, tækni, þekking og vilji til að fara að endurvinna þessa hluti. Þar af leiðandi er óeðlilegt að kerfið okkar sé sett upp með þeim hætti að það hvetji í rauninni til útflutnings.

Ég fagna því að þetta mál sé fram komið og við höfum tækifæri til að ræða um úrgangsmál sem eru auðvitað mjög stórt umhverfismál. Ég myndi auðvitað fagna því ef hér kæmi hátæknisorpbrennslustöð fyrr en síðar. En þá segi ég líka: Það er ekki nóg að kanna hagkvæmni og möguleika, það þarf líka reisa hana og þá þarf að komast að niðurstöðu um það hver eigi að bera kostnaðinn af því. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru nýbúin að leggja í mikla uppbyggingu á gas- og jarðgerðarstöð og eins og ég hef farið yfir í ræðu minni þá hefði mér þótt eðlilegra að þessi málaflokkur væri á herðum ríkisins. Svo eru aftur á móti aðrir málaflokkar á herðum ríkisins sem væri jafnvel betur komið fyrir hjá sveitarfélögunum. Ég ætla bara að beina því til hv. umhverfis- og samgöngunefndar þegar hún fjallar um þetta mál að horfa líka til þess hvar ábyrgðin á þessum málaflokki liggi og hvort það sé kannski skynsamlegt að breyta því til lengri tíma litið og að ríkið sjái um úrgangsmál með heilsteyptu kerfi fyrir landið allt, sem lýtur þá fyrst og fremst auðvitað að umhverfismálum þegar kemur til þess að ákvarða hvar og hvernig sorpið okkar er endurunnið og endurnýtt.