151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[17:12]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það liggur við að ég sé að brjóta reglur sem settar voru á síðasta ári um meðsvar. Ég veit varla hvar ég á að bera niður til að fara í andsvar við hv. þingmann sem nánast talaði um framboð fyrir Miðflokkinn, og er hann ætíð velkominn til okkar. Mér fannst ræðan alveg prýðisgóð og einmitt töluð út frá hjartanu. Það hefur stundum verið sagt um mína ræðumennsku, þess sem hér stendur, að hún sé einna skást þegar ég tala út frá hjartanu. Ég hafði gaman af að hlusta á þessa ræðu og er hjartanlega sammála. Þingmaðurinn gekk það langt að tala um að þau lög sem nú væru í gildi væru ólög í sambandi við jafnréttisstefnuna innan félaga og hvað þá heldur að taka upp sektarákvæði. Það er tvennt ólíkt, jafnrétti og að staða kynja sé jöfn í félögum. Þarna er verið að leitast við að fá út jafna stöðu með þvingunaraðgerðum eins og sektarákvæðum.

Það eru þrír hv. þingmenn úr Sjálfstæðisflokknum í nefndinni og þeir tóku varla til máls en voru með fyrirvara á síðustu metrunum. Þykir mér það miður að þeir séu ekki hér í ræðu. En mig langar til að spyrja þingmanninn, (Forseti hringir.) af því að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir talaði um það áðan að þetta væri jafnrétti til útflutnings. Hvað segir hv. þingmaður um það að flokkssystir hans hafi sagt að þetta væri jafnrétti til útflutnings?