151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[17:29]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þetta frumvarp er dæmi um slíkt. Ég er ekkert viss um að þeir sem eru fylgjandi frumvarpinu og eru á því velti fyrir sér yfir höfuð innihaldinu eða hugsi eitthvað dýpra um það, til að mynda hvaða afleiðingarnar það geti haft. Nei, frasinn er: Þetta er jafnréttismál. En þegar menn fara að skoða þetta betur þá hefur þetta ekkert með jafnréttismál að gera. Ég er að vonast til að ég nái að sannfæra fólk hér núna, sem hefur verið frekar hliðhollt frumvarpinu, um að þetta sé ekkert jafnréttismál. Þetta er aðför að frelsinu og eignarréttinum. Það er tilgangurinn með ræðu minni. En ég þakka hólið. Ég fæ nú ekki oft hól en þegar það kemur þá gleðst ég mjög. En innihaldið hjá mér er allt raunverulega um þetta. Þótt málið láti lítið yfir sér, menn segi að auðvitað verði að vera jafnt hlutfall, þá er miklu meira innihald í heila málinu sjálfu, ekki í frumvarpinu, sem menn hugsa ekkert út í. Þetta er ekkert eina málið sem er þannig. Við erum með nokkur, fullt af þeim, sem er áhyggjuefni. Það er svo mikið áhyggjuefni af því að fólk er ekki að hugsa um heildarmyndina, það hugsar ekki lengra. Það kemur bara eitthvert lítið, fallegt og krúttlegt mál og já, ég er jafnréttissinni, en svo allt í einu vöknum við upp við að hér er allt komið í kaldakol.