151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

staða stóriðjunnar.

[11:29]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða hér stóriðju. Við vitum að stóriðjan hefur gegnt stóru hlutverki í þjóðfélagi okkar, sérstaklega t.d. í því nærumhverfi þar sem ég hef lifað í áratugi, í Hafnarfirði. Þar hefur heilt samfélag haft mjög góðan ábata af því að álveri var komið á fót. Á sama tíma höfum við gert góðar kröfur um að dregið sé úr mengun eins og hægt er. En ég tel að svona stóriðjufyrirtæki séu sennilega og vonandi risaeðlur fortíðar.

Ég vil taka undir það sem sagt var um vetnið. Það er eiginlega mest spennandi framtíðarsýn sem við höfum. Við gætum verið með stóriðju sem væri gífurlega vistvæn, eða smáiðju. Það stendur til að byggja vetnisverksmiðju við Búrfell og flytja vetnið til Hollands. Það er byrjað að vetnisvæða strætóa, rútur, skip, lestar og jafnvel er farið að tala um flugvélar. En hvað er vetni? Vetni má framleiða þegar rafmagn er sett í vatn og við brennsluna fáum við hreint vatn. Hugsið ykkur kostina. Á sama tíma erum við kannski að tala um kolabrennslu í Kína til að framleiða vetni. Við erum í sérstakri aðstöðu hér til þess að vera í forystu um að gera þessa hluti. Það sem er mest spennandi í þessu er framleiðsla á vetnisbílum. Og hvernig fer framleiðslan fram? Jú, þeir eru að búa til vetnismótor til að framleiða rafmagn til að knýja bílinn áfram. Útblásturinn er hreint vatn. Er hægt að fá það betra? Ég held ekki. Þetta er framtíðin sem við eigum að einbeita okkur að.