151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

staða stóriðjunnar.

[11:43]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Í fyrri ræðu gagnrýndi ég stóriðjustefnuna. Þá er eðlilegt að menn spyrji: Hvað eigum við þá að gera í staðinn? Ég myndi segja að við þyrftum í auknum mæli að horfa til þess að vera með sveigjanlega smáiðju, umhverfisvænar lausnir og hagkerfi sem þjónar hagsmunum bæði lítilla og stórra fyrirtækja á jafnræðisgrundvelli, en að ekki sé endalaust verið að hygla stórum fyrirtækjum og endalausum þörfum þeirra. Ekki síður þarf að þjóna hagsmunum samfélagsins í heild.

Ef við horfum á 20. öldina þá var hún ein stór og viðstöðulaus brunaútsala á náttúrunni úti um allan heim, hér á landi og alls staðar. Við verðum að hætta þessu vegna þess að þetta mun kosta okkur plánetuna okkar. Því er ástæða til að benda á tillögu sem ég lagði fram, tillögu Pírata og Framsóknarflokksins, um mótun sjálfbærrar iðnaðarstefnu. Ég hvet hv. þingmenn og aðra til að kynna sér það sem við setjum fram í þeirri tillögu vegna þess að hér á landi er þörf á iðnaðarstefnu, ekki stóriðjustefnu heldur iðnaðarstefnu, stefnu um það hvernig framleiðslutækni og atvinnuuppbygging eigi að fara fram, hvernig hún eigi að vera sjálfbær, hvernig hún eigi að virka.

Staðan er sú að Ísland er í dag ekki með neina iðnaðarstefnu heldur fullt af ólíkum stefnum sem ríma ekki hver við aðra og snúa að vissum þáttum atvinnumála án þess að nein heildstæð mynd sé af því hvernig við viljum að þetta land verði. Það er vandamál. Það hefur gert það að verkum að aðgerðir í þingsal og úti um allt í samfélaginu verða ómarkvissar. Við höfum glatað ótrúlega mörgum tækifærum vegna þessa. Við verðum að taka á þessu. (Forseti hringir.) Öðruvísi getum við ekki þróað hagkerfi okkar til að vera í þágu samfélagsins og náttúrunnar, og hvort tveggja þarf að lifa af.