151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

staða stóriðjunnar.

[11:46]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í seinni ræðu minni um stöðu stóriðjunnar ætla ég að einblína á að til framtíðar álít ég samkeppnishæfni íslenskrar stóriðju liggja í áframhaldandi framförum í umhverfismálum, áframhaldandi grænni nýsköpun, grænni tækniþróun og símenntun starfsfólks. Öll þurfum við að róa að sama marki, að draga úr kolefnislosun í heiminum. Íslensk stóriðja hefur aðgang að hreinni orku og mikilvægt er að hún hafi það áfram. Þar fyrir utan eru mörg tækifæri til að draga úr losun kolefnis frá stóriðju.

Það eru frábærar fréttir að vel gangi með þróun tækni sem veldur stökkbreytingu við að draga úr losun kolefnis frá álverum, það er a.m.k. miklu framar mínum vonum þó að ég hafi fylgst spennt með í nokkurn tíma. Alcoa og Rio Tinto hafa verið leiðandi í þróun svokallaðra óvirkra rafskauta en notkun þeirra verður til þess að kolefnislosun við rafgreiningu súráls hættir. Þess í stað losnar súrefni samhliða því að álið er losað úr súrálinu en enginn koltvísýringur fer út í andrúmsloftið. Gert er ráð fyrir að þessi tækni verði nothæf strax árið 2024 en með henni mætti minnka losun koltvísýrings á Íslandi um allt að 30%. Það er einstök staða á heimsvísu.

Þar fyrir utan er markvisst verið að leita leiða til að hreinsa koltvísýring úr afgasi verksmiðja og binda það í bergið með Carbfix-aðferðinni en hafnar eru tilraunir við niðurdælingu kolefnis. Þá eru uppi hugmyndir um lofthreinsiver eins og Carbon Iceland hefur kynnt sem felst í varanlegri bindingu kolefnis og bindingu í hringrás, t.d. í matvælaframleiðslu. Með allar þessar framfarir veltur á miklu að vera þátttakendur í alþjóðlegu samstarfi til að tryggja vottun á umhverfislegri stöðu.