151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

staða stóriðjunnar.

[11:50]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Við erum enn að ræða um stóriðju. Eins og ég sagði í síðustu ræðu minni þá fagna ég stóriðju og smáiðju í framleiðslu á vetni. Ég vil bara benda öllum á að það er frábær grein í Bændablaðinu um vetni, í nýjasta blaðinu, og m.a.s. krossgáta í kaupbæti. En það er önnur stóriðja sem við gætum líka tekið að okkur, og ég er algerlega sammála því, en það er framleiðsla matvæla, grænmetis. Ég var að sjá myndir af því að verið er að byggja stórt grænmetishús í Mosfellsdal. Þetta er framtíðin. Framtíðin er að fólk er að breyta um matarstíl. Það er eiginlega fáránlegt í okkar landi, þar sem við getum ræktað gífurlega mikið, að við séum að flytja inn stóran hluta af matvælum. Við eigum að vera eins sjálfbær og við getum í matvælaframleiðslu. Við getum þetta. Við getum virkjað bændur um allt land. Það er eiginlega skylda okkar að hugsa um að vera sjálfbær í framleiðslu á matvælum og líka að fara þá leið, eins og stendur til, að fara í vetnisframleiðslu. Við verðum að átta okkur á því að rafbílar, eins og þeir eru framleiddir í dag, eru gífurlega mengandi. Rafhlöðurnar eru gífurlega mengandi við framleiðslu og gífurlega mengandi að endurnýta þær. En í vetnisbílum verður bara vetnismótor sem knýr smárafhlöðu sem síðan miðlar út. Drægnin er margfalt meiri. Þetta er framtíðin, held ég, vegna þess að við tökum stærstu mengunarvaldana út. Eins og ég kom að áður og er jafnvel það besta í þessu öllu saman blásum við út hreinu vatni, jafnvel drykkjarhæfu vatni.